151. löggjafarþing — 69. fundur,  18. mars 2021.

húsnæðismál menntastofnana.

[13:25]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Húsnæði og aðstaða menntastofnana hefur verið töluvert til umfjöllunar á síðustu vikum. Mygla hefur leikið Fossvogsskóla grátt og nú hefur kennsla í húsnæði skólans verið stöðvuð. Skemmst er þess að minnast þegar húsnæði sviðslistadeildar LHÍ svo gott sem myglaði til grunna áður en loks var brugðist við en segja mætti að allt frá stofnun Listaháskólans hafi húsnæðisvandinn verið samofinn sögu skólans. Tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að unnið verði að lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands á kjörtímabilinu. Það birti því til síðastliðinn júlí þegar kynntar voru niðurstöður frumathugunar sem leitt höfðu í ljós að annaðhvort Vatnsmýrin eða Laugarnes væru ákjósanlegar staðsetningar fyrir skólann en í fréttaflutningi síðastliðna viku kom fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að hún vænti þess að svör liggi fyrir um húsnæðið „á allra næstu vikum“. Hins vegar er allt annað að heyra á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem tekur aldeilis ekki í sama streng og hljómar síður en svo opinn fyrir því að leggja þurfi mikla fjármuni í mannvirki tileinkuð menntastofnunum. Þvert á móti hefur ráðherra sagt að það dýrasta sé ekki efst á blaði.

Því vil ég spyrja, virðulegi forseti: Hvers vegna er það ekki efst á blaði núna að fjármagna sárþurfandi langsveltar menntastofnanir þar sem gríðarlega mikilvæg menntun framtíðarkynslóða þessa lands fer fram? Á að nota Covid sem afsökun? Mikið væri það órökrétt nálgun því að ef einhvern tímann er ástæða til að leggja góðan grunn að menntaumhverfi skapandi greina til að mæta ófyrirsjáanlegum og fordæmalausum aðstæðum sem mögulega kunna að koma upp í framtíðinni, þá er það núna. Hverju sætir þessi bið? Ég spyr: Er ósamkomulag við ríkisstjórnarborðið um forgangsröðun verkefna? Hvenær er raunverulega að vænta svara um þessi mál?