151. löggjafarþing — 69. fundur,  18. mars 2021.

húsnæðismál menntastofnana.

[13:29]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er gott að heyra og heldur betur jákvætt að það sé hugur í ríkisstjórninni allri eða hjá flestöllum ráðherrum hvað varðar þetta mikilvæga mál. Ég vil hnykkja á því að í ríkisstjórnarsáttmálanum kemur einmitt fram að það standi til að gera bót á þessu máli. Eins finnst mér, virðulegi forseti, ekki til of mikils ætlast að fjármagn fylgi áætlun um að leggja grunninn að framtíðarmenntatækifærum ungs fólks á Íslandi.

Nýlega var samþykkt þverpólitísk þingsályktunartillaga um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum og aðgerðaáætlun væntanleg á seinni hluta þessa árs. Mig langaði að spyrja: Er einhver vinna í gangi hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvað varðar myglu í skólum í ljósi þess sem er að gerast núna í Fossvogsskóla vegna þess að við þurfum að bíða eftir niðurstöðum starfshóps hvað varðar raka- og mygluskemmdir? (Forseti hringir.) Getur verið að það séu fleiri tifandi myglutímasprengjur í skólum landsins og er ráðherra að vinna að einhverri aðgerðaáætlun til að tryggja að svo sé ekki?