151. löggjafarþing — 69. fundur,  18. mars 2021.

húsnæðismál menntastofnana.

[13:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar kom upp mygla í húsnæði Listaháskólans vann mitt ráðuneyti að því hratt og örugglega að flytja starfsemina. Við hlustuðum á nemendur og fórum yfir þau atriði sem þurfti að bæta og aðstoðuðum Listaháskólinn í því, þannig að á sínum tíma gerðum við það. Í kjölfarið fórum við í vinnu varðandi það að meta framtíðarþörf skólans til þess að hægt væri að reisa nýjan listaháskóla. Ég get fullvissað hv. þingmann um það að þegar svona mál hafa komið upp hjá okkur hefur verið farið hratt og örugglega í það. Vil ég líka nefna Háskólann á Akureyri þar að lútandi, þar kom upp mygla og við unnum með skólamálayfirvöldum til að tryggja að allt húsnæði væri öruggt. Það er hins vegar svo að við þurfum stöðugt að vera á vaktinni. En ég vil bara ítreka það að þegar svona mál hafa komið upp hjá þeim stofnunum sem við berum ábyrgð á höfum við brugðist hratt og örugglega við.