151. löggjafarþing — 70. fundur,  18. mars 2021.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

590. mál
[13:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem er mjög brýnt, eitt af þeim málum sem var tekið til með fyrri aðgerðum sem gerðar voru vegna Covid-faraldursins. Gildistími þeirra aðgerða hefur reynst heldur tæpur, stuttur, vegna þess að teygst hefur úr þessum faraldri. Því var gripið á það ráð að leggja þetta mál fram og hefur mikill einhugur ríkt um það í allsherjar- og menntamálanefnd sem er rétt að vekja athygli á. Það hafa allir unnið að því samhentir að málið yrði afgreitt á þinginu hratt og örugglega, enda eru ríkir hagsmunir undir. Það eru fyrirtæki sem hafa barist um á hæl og hnakka og sjá fram á að án framlengingar slíks ákvæðis, eins og hér kemur fram, gæti rekstur þeirra verið í uppnámi. Auðvitað viljum við, herra forseti, koma í veg fyrir að fyrirtæki flosni upp meira en orðið er af völdum faraldursins. Ég vildi bara taka það fram, verandi meðflutningsmaður á nefndarálitinu og stuðningsmaður þessa máls, að það ríður á að við afgreiðum það mjög fljótt og mjög vel. Ég styð það eindregið.