151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í gærkvöldi þegar hv. þingmenn voru að undirbúa sig fyrir þennan þingfund var þetta mál ekki á dagskrá. Þingflokksformenn fengu að vita það á fundi með forseta rétt fyrir klukkan eitt, þegar þingfundur var settur, að málið ætti að fara á dagskrá, að taka ætti hluta af frumvarpi sem er til vinnslu í umhverfis- og samgöngunefnd, skella því á dagskrá og helst að afgreiða það bara í dag. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er svona mikill asi hér á ferð? Hvernig stendur á því? Og ég vil spyrja hv. þingmann hvort ég skilji málið rétt, að hér sé um það að ræða að taka eigi gild bólusetningarvottorðið utan Schengen-svæðisins. Að lokum vil ég spyrja hv. þingmann hvort sóttvarnalæknir hafi gert tillögu um þessa breytingu eða þá breytingu sem frumvarpinu er ætlað að styðja.