151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf sko alls ekki að biðjast afsökunar á því að misskilja ræðu mína eða neitt í þessum málum. Áhyggjur mínar snúa að því að ég og þeir einstaklingar sem ég hef aðgang að, höfum ekki haft færi á að skoða málið nægilega kirfilega til að tryggja það í mínum huga og í mínum þingflokki að málið standist stjórnarskrá. Það eina sem við viljum er að málið sé skoðað, að þessi vinkill sé skoðaður alveg í kjölinn. Og þær fréttir sem ég fékk áðan meðan á ræðunni stóð, að málið kæmi ekki til atkvæðagreiðslu í dag heldur yrði tækifæri til þess að skoða það nánar, sefar áhyggjur mínar nógu mikið til að ég þurfi alla vega ekki tjá mig mikið meira um það hérna í dag.

En efnislega varðandi það sem hv. þingmaður nefndi þá hlýddi ég mjög vel á orðin sem hv. þingmaður las hér upp og þó að ég hafi ekki haft þau fyrir framan mig og gæti mögulega hafa misheyrt eða misskilið eitthvað af því þá skildi ég lagatilvísunina þannig að hún fjalli um að ráðherra geti sett reglur um íslensk flugfélög þegar þau eru í útlöndum. Það er eðlilegt. En það er líka svolítið punkturinn, það er hluti af því sem veldur mér áhyggjum þegar sami ráðherrann setur síðan reglur fyrir téð flugfélög um það hvernig þau eigi að fara með íslenskan ríkisborgara erlendis. Það er það samspil sem ég hef áhyggjur af. Og aftur, vel má vera að það séu fullkomlega góðar skýringar á þessu og mögulega getur hv. þingmaður sefað áhyggjur mínar frekar eftir þetta samtal. En við þurfum að komast á þann punkt, alla vega í þingflokki mínum, að geta sagt við okkur sjálf að við trúum því að málið standist stjórnarskrá til að geta stutt það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en þakka hv. þingmanni fyrir samskiptin og býst fastlega við því að málið verði skoðað nógu vel svo að við lendum því farsællega hér á Alþingi.