151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[14:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þá umræðu sem hér er að hefjast. Í tilefni þess að hann beinir til mín fjórðu spurningunni nefni ég að ég mun svara henni í lokin, sauma saman svör við þeirri spurningu sem hann vakti þar. Ég vil fyrst nefna að í gangi er mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Stjórnvöld hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á starfsskilyrði landbúnaðarins en hins vegar hefur stefnumótun íslenskra stjórnvalda í gegnum tíðina verið mjög brotakennd og komið fyrst og fremst fram í búvörusamningum og öðrum ákvörðunum sem leiða af þeim. Tilgangur þeirrar vinnu sem stendur yfir núna er fyrst og fremst sá að móta heildstæða stefnumörkun fyrir landbúnaðinn um hlutverk og þýðingu greinarinnar í íslensku samfélagi. Ég geri ráð fyrir því að sú vinna sem þar er hafin komi fram sem þingsályktunartillaga og verði svo grunnur búvörusamningaendurskoðunarinnar 2023. Við munum að sjálfsögðu gera ósk um að víðtækt samráð verði við alla helstu hagaðila í þessum efnum.

Ég vil nefna það sömuleiðis að við höfum sett í gang tímasetta aðgerðaáætlun í 12 liðum til eflingar á íslenskum landbúnaði. Þessum aðgerðum er ætlað að efla stoðir landbúnaðarins. Tilgangur þeirra er að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar. Þessar aðgerðir eru allar komnar af stað og ég vænti þess að þær verði flestar komnar á lokastig um mitt ár.

Varðandi spurningar hv. þingmanns vil ég nefna að það er ekki hlutverk stjórnvalda að setja fram hversu hátt hlutfall innflutnings innlend kjötframleiðsla ræður við. Fyrirtækin eru á allan hátt betur til þess fallin en stjórnvöld, og eins og fram kom þá hafa þau lýst yfir áhyggjum sínum af þessari stöðu. Þess vegna erum við á vegum stjórnvalda og fyrirtækjanna að skoða möguleika til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni og sú vinna stendur yfir. Við höfum brugðist við þeirri stöðu sem skapast hefur núna á síðasta ári með fjölþættum aðgerðum, m.a. með innlendum kjötframleiðendum. Ég vil nefna í þessu sambandi að samkvæmt nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands um fæðuöryggi á Íslandi er hlutur innlendrar kjötframleiðslu nú um 90% af innlendum markaði. Aðstæður hafa á engan hátt verið venjulegar síðastliðið ár, en fyrirtækin á þessum markaði munu að sjálfsögðu bregðast við aukinni samkeppni. Lýst var yfir áhyggjum af stöðunni og nú er sú vinna í gangi sem ég nefndi áðan um aukna hagræðingu og skilvirkni. Ég vænti þess að sá hópur sem er að vinna skili tillögum þar að lútandi innan tíðar.

Þegar spurt er hvernig ég sjái fyrir mér á hvaða vegum mjólkurframleiðendur og mjólkuriðnaðurinn eigi að takast á við þennan innflutning, fyrst og fremst úr próteinhluta mjólkurinnar, vil ég segja að samkvæmt þessari sömu skýrslu frá Landbúnaðarháskólanum kemur fram að hlutdeild innlendu framleiðslunnar í mjólkurvörum er 99% af neyslu. Mjólkuriðnaðurinn hefur, eins og áður hefur komið fram, sérstakar heimildir til verkaskiptingar og samstarf samkvæmt 71. gr. búvörulaga, sem aðrar greinar landbúnaðarins hafa ekki. Þar að auki gildir framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu og við ákvörðun um heildargreiðslumarks mjólkur árið 2021 var farið nákvæmlega að tillögu Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Iðnaðurinn hefur því verkfæri til að bregðast við þróun á markaði og aðlaga framleiðslugetuna sameiginlega að henni. Ég tel mjólkuriðnaðinn best til þess fallinn að hafa forgöngu um þær aðgerðir sem hann telur nauðsynlegar til að bregðast við því sem hv. málshefjandi nefnir.

Ég vil svo nefna hér undir lokin á ræðunni hvaða leiðir við höfum til að aðstoða landbúnaðinn við að takast á við kostnað vegna orkuskipta og draga úr kolefnisfótspori. Við endurskoðun búvörusamninganna, sem er nýlokið, var þetta sérstök áhersla. Þar er stefnt að því að íslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður árið 2040. Sömuleiðis er þessa stefnumörkun að sjá hjá Bændasamtökum Íslands. Við höfum gefið út aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Það sem snertir landbúnaðinn er nákvæmlega tilgreint og ég ætla ekki að fara yfir það sérstaklega hér en loftslagsvænn landbúnaður er eitt af verkunum og þar er unnið af mjög miklum myndarskap. Ég legg mikla áherslu á að það er ljóst að loftslagsmálin njóta mikillar athygli, eðlilega, og landbúnaðurinn og búskapur á Íslandi skipar og gegnir miklu hlutverki þegar kemur að þeim aðgerðum sem Ísland þarf að grípa til á þessu sviði. Verkið verður ekki unnið án öflugrar þátttöku bænda. Þess vegna er mjög mikilvægt að öll útfærsla í þeim efnum verði unnin í nánu samráði við þá.