151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Grundvallarbreytingar hafa orðið á umhverfi landbúnaðar eftir að vondir tollasamningar voru gerðir fyrir nokkrum árum gegn vilja okkar í VG. Þeir leiddu til samdráttar í innlendri kjötframleiðslu og lítils ávinnings í útflutningi á lambakjöti og skyri. Framleiðsla innlendrar kjötframleiðslu er því að margra mati komin að þolmörkum og verð lækkar til bænda en það skilar sér ekki til neytenda. Mjólkuriðnaðurinn stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Stóraukinn innflutningur er á próteinvörum og það er brýnt að endurskoða tollasamningana með það að markmiði að draga úr þessum aukna innflutningi á landbúnaðarvörum. Mjólkuriðnaðurinn þarf að halda áfram að auka nýsköpun og gott dæmi er frá Skagafirði þar sem mysan er fullnýtt sem afurð. Innlendur landbúnaður er í góðri stöðu til að draga úr kolefnisspori og takast á við orkuskipti og sú vinna er þegar hafin hjá greininni með stuðningi í búvörusamningum. Það er horft til þess að framræsa mýrar og möguleika á að knýja vélar með metan eða vetni en það þarf að styrkja innviðina til þess. Besta leiðin til að minnka kolefnisspor landbúnaðar er að stórauka framleiðslu á fjölbreyttum landbúnaðarvörum innan lands og draga úr miklum innflutningi sem skilur eftir sig stór kolefnisspor. Hér er nægt land, hreint vatn og vistvæn orka og tækifærin í landbúnaði eru mjög mikil. Við þurfum að halda áfram að styðja við íslenska framleiðslu. Það er mjög mikilvægt að gera það á þessum tímum.

Hér hefur verið nefnt að í mótun er landbúnaðarstefna fyrir Ísland og það er vel. Við höfum samþykkt aðgerðaáætlun í matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og stofnað Matvælasjóð. Allt eru þetta aðgerðir sem eru jákvæðar fyrir tækifæri og möguleika á að efla íslenskan landbúnað til framtíðar.