151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:24]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlusta á þær ræður sem hér hafa verið fluttar. Það er alveg ljóst að hugur Alþingis liggur nú hjá landbúnaðinum. Auðvitað höfum við misjafnar skoðanir á því hvert við eigum að fara, en vissulega er vilji til þess og það er gott að heyra að menn sjá tækifæri í því sem fram undan er. Við eigum sannarlega mikil tækifæri. En við þurfum líka að horfa til þess að bjóða upp á þau starfsskilyrði að menn geti unnið sig út. Við getum horft á mjög breiðan landbúnað; beint frá býli, heimaslátrun, við getum haft alla flóruna í þessu. Síðan erum við með stærri fyrirtæki, en við þurfum þá líka að leyfa fyrirtækjunum að sameinast og hagræða. Slegið hefur verið á það í skýrslum og hjá endurskoðunarfyrirtækjum að það geti verið hagræði af samruna eða samstarfi innan þessa geira, um 3 milljarðar á ári. Ég tel næsta víst að í því samhengi sé þetta einn af fáum raunhæfum möguleiki fyrir t.d. sauðfjárrækt og nautgriparækt til að spyrna við, því að allir vita jú hvernig staðan er í þessum tveimur atvinnugreinum, að þar erum við með gríðarlega lágt afurðaverð. Við erum með sambærilegt afurðaverð í sauðfjárrækt og er í Rúmeníu. En það er mín einlæga skoðun og trú á þetta verkefni, að svo okkur takist að ná viðspyrnu fyrir greinarnar þurfum við að horfa til þess sama og mjólkuriðnaðurinn hefur, þ.e. undanþágu frá 71. gr. búvörulaga.