151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg að tryggja gott og sanngjarnt kerfi. Við þurfum líka að tryggja að innviðir séu sterkir um land allt. Við sjáum t.d. fréttir af því að mjólk er ekki sótt vegna þess að ekki er mokað heim að bæjum. Við þurfum að tryggja að landbúnaðurinn sjálfur hafi aðgang að öruggu rafmagni og flutningsneti, sterkum innviðum, einfaldara regluverki, fyrirsjáanleika í tollamálum og áframhaldandi þekkingarsköpun og þekkingaröflun. Það þarf að gæta sérstaklega að Garðyrkjuskólanum, vil ég segja hér. Uppbygging innviða er að mínu mati frumforsenda þess að framfarir og nýsköpun eigi sér stað í greininni, að nýliðun verði raunverulega möguleg. En hægagangurinn hér er að mínu mati vandræðalegur og hann er í boði stjórnarflokkanna. Þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, áður Alþýðubandalagið, hafa meira og minna, allt frá því að Ísland varð lýðveldi, borið ábyrgð á þessum kerfum og stundum staðið í vegi fyrir mjög mikilvægum breytingum, kannski af ótta við að vísa veginn og grípa tækifærin sem mjög fjölbreyttar greinar atvinnulífsins og landbúnaðarins hafa upp á að bjóða.

Ég vil vara við því sem ég hef heyrt. Hér er verið að óska eftir undanþágu, enn og aftur, frá samkeppnisreglum fyrir landbúnaðinn. Gott og vel, við skulum taka þá umræðu. En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ég beini því til hæstv. landbúnaðarráðherra: Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef það á að fara að leyfa greininni að undanþiggja sjálfa sig frá samkeppnislögum þá verðum við að taka hinn endann, sem er hvernig við tryggjum samt samkeppni í landinu. Það er óumflýjanlegt að við tökum til greina hvað við ætlum að gera við tolla. Það þarf þá að losa um tolla, losa um innflutning, ef það á að vera undanþága frá samkeppnislögum.

Ég vil að lokum segja: Það er einhver meiri háttar skekkja í gangi í þessu kerfi. Við erum með eina hæstu landbúnaðarstyrkina (Forseti hringir.) á sama tíma og neytendur borga hæsta verðið. Kjör íslenskra bænda eru hins vegar með þeim slökustu í alþjóðlegum samanburði. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé: (Forseti hringir.) Hagsmunum hverra er kerfið í raun og veru að þjóna?