151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil halda áfram með spurninguna um það hvernig í ósköpunum þetta getur verið góð tímasetning fyrir kerfisbreytingar í nýsköpunarumhverfinu. Í umsögn Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar segir, með leyfi forseta:

„… að tilkynningin ein og þrýstingur ráðuneytisins á að þjónustu stofnunarinnar sé ekki viðhaldið er þegar þess valdandi að aðeins eru fjórir starfsmenn eftir af 20 hjá Nýsköpunarmiðstöð sem tengjast stuðningi við frumkvöðla á frumstigi og fækkar í tvo á næstunni. Þeir voru 20 fyrir tilkynningu ráðherra í febrúar. Starfsemi á Ísafirði er farin, starfsemi á Akureyri er tóm skel í dauðateygjum. Stofnunin hefur ekki getað ráðið starfsfólk til að koma til móts atgervisflóttanum.“

Þegar við fórum inn í faraldurinn kölluðu allir hér á þingi eftir því að nýsköpun væri leiðin til lausnar út úr þeirri efnahagskreppu sem við værum að ganga í gegnum, að nýsköpun væri leiðin til að komast út úr því ástandi. Hvernig getur það þá verið góð hugmynd að rústa aðgengi að frumnýsköpun á þann hátt sem gert hefur verið? Hvernig getur það verið góð hugmynd að fara í kerfisbreytingar á vettvangi sem við viljum dæla stuðningi inn á? Ég skil það ekki og mig langar að fá betri svör við því.

Hv. þingmaður talaði um að umsóknir í Tækniþróunarsjóð utan af landi væru ekki samþykktar í sama hlutfalli og aðrar umsóknir. Nú fór ég í heimsókn í Tækniþróunarsjóð fyrir rúmu ári, að verða tveimur kannski. Þar voru skilaboðin þau að svipað hlutfall væri samþykkt af umsóknum utan af landi og héðan af höfuðborgarsvæðinu. Vandinn væri bara að það væru miklu færri umsóknir sem kæmu utan af landi. Jafn hátt hlutfall af þeim umsóknum sem bárust utan af landi var samþykkt og af þeim umsóknum sem bárust af höfuðborgarsvæðinu. Það voru bara miklu fleiri umsóknir sem bárust þaðan. Það væri einmitt stuðningurinn við fólk sem vill sækja um nýsköpunarstyrki í Tækniþróunarsjóð sem væri vandamálið, að það fengi ekki aðstoð. Og nú er það orðið enn verra.