151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er dæmi um mjög lélega hugmyndafræði, alveg rosalega lélega hugmyndafræði. Hér er verið að leggja niður stofnun, sem er með fullt af þekkingu innan sinna vébanda, án þess að útskýra að hvaða leyti það sé betra sem tekur við. Í rauninni var tekin ákvörðun um að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður án þess að nokkur hefði hugmynd um hvað tæki við. Það er enn þá hugmyndafræðin þegar allt kemur til alls. Það er ekki einu sinni reynt að útskýra af hverju það er betra sem kemur í staðinn. Það er hugmyndafræðin sem endurspeglast í 2. gr., stofnun einkahlutafélags. Nú eru stofnanir einni færri og einkahlutafélög einu fleira. Er þá hægt að monta sig: Við fækkuðum stofnunum, skárum niður kerfið, minnkuðum báknið o.s.frv.? Við teljum einkahlutafélögin ekkert með, þau eru bara til hliðar. Hvers konar hugmyndafræði er það? Það er dálítið merkileg hugmyndafræði. Það er hugmyndafræði pólítíkur sem tekur ákvörðun án þess að vita hvort hugmyndin er góð eða ekki, það eru aðgerðir og geðþóttaákvarðanir vegna hugmyndafræði en ekki vegna raka, ekki vegna þess að það sé góð hugmynd að breyta til.

Mig langar að lesa meira úr umsögn Space Iceland, sem er mjög áhugaverð hvað þetta varðar. Þar kemur fram, og hefur komið fram í umræðunni, með leyfi forseta:

„Nýsköpunarmiðstöð er ekki fullkomin stofnun og má því vel við endurbótum. Vinna að endurbótum fór þó aldrei fram.“

Hluti af því sem samþykkt var á þingi varðandi nýsköpunarstefnu var að vinna að endurbótum á Nýsköpunarmiðstöð. Fólk vissi hvað var að og var að biðja um endurbætur á þeim atriðum. En nei, þá var bara öllu hent burt án þess að nokkur hefði hugmynd um hvað tæki við. Síðan hafa komið eftiráskýringar, fullyrðingar ráðherra um að stjórnsýslukostnaðurinn sem fór í Nýsköpunarmiðstöð myndi nýtast beint í nýsköpunarverkefni fyrir einhverja töfra af því að öll þau verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð var að vinna í færu til annarra stofnana án stjórnsýslukostnaðar. Kostar sem sagt ekkert að færa verkefni úr einni stofnun í aðra? Spörum við með einhverjum töfrum stjórnsýslukostnaðinn við að gera slíkt? Af hverju færum við þá ekki öll verkefni úr helmingi allra stofnana í hinn helminginn af stofnunum og öfugt? Þá höfum við fært öll verkefni til annarra stofnana. Enginn stjórnsýslukostnaður fylgir með og við spörum alveg heilan helling í stjórnsýslupening. Auðvitað er það ekki svo. En það eru rökin, að rosalega mikill peningur sparist með því að leggja þessa stofnun niður og færa verkefni til annarra stofnana. Það gengur að sjálfsögðu ekki upp.

Ég held áfram með umsögnina, með leyfi forseta:

„Að mati Space Iceland er helsti veikleiki Nýsköpunarmiðstöðvar þó hið pólitíska umhverfi sem hún starfar í. Nýsköpunar- og atvinnustefna stjórnvalda er einfaldlega tilviljanakennd. Það skortir nauðsynlegan aga til að hafa hemil á tískubólum og skyndihugdettum svo mögulegt sé að sækja fram til lengri tíma. Verulega skortir á samhæfingu orða, stefnu og aðgerða hins opinbera. Þess í stað hafa stjórnvöld haft tilhneigingu til að stofna til átaksverkefna sem eru undirfjármögnuð, njóta ekki starfskrafta og byggja á hugdettum og stemningu fremur en greiningum og skýrum markmiðum. Það einkennir þessi verkefni að eftirfylgni er engin og þol til raunverulegrar uppbyggingar skortir. Nýlegt dæmi er til að mynda Lóa – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina, sem ætlað er „að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæðanna sjálfra.“ Heildarúthlutun er 100 milljónir á ári. Það er virði parhúss á höfuðborgarsvæðinu. Um það eiga frumkvöðlar og fyrirtæki í þróun og rannsóknum utan höfuðborgarsvæðisins að slást. Upphæðin er svo smá og stjórnsýslan svo mikil að augljóst er að sjóðurinn mun soga meiri tíma og kostnað í formi vinnu frumkvöðla af landsbyggðum en hann leggur til. Verra er þó að sjóðinum fylgir engin sérstök stefna, bara yfirbygging. Hann er því aðeins nýtt stjórnsýslupúsl umsókna fyrir frumkvöðla og atvinnulíf landsbyggðar. Að sjálfsögðu er ekki annað hægt en að fagna framlagi til nýsköpunar, en efast má um að slíkar smáupphæðir leiði af sér byltingu í atvinnu- og nýsköpun. Þá er óskiljanlegt hvers vegna þessi fjárhæð fór ekki bara í uppbyggingasjóði landshluta þar sem Lóu er hvort sem er ætlað að veita styrki í samræmi við stefnu hvers landshluta. Sem sagt starfa eftir uppbyggingaráætlunum sem fjársveltir uppbyggingarsjóðir fylgja.“

Það er til fyrirkomulag til að taka á móti þessum styrkjum. Það er til fyrirkomulag þar sem verið er að vinna í þessum uppbyggingaráætlunum. Af hverju má ekki nota það sem þegar er til frekar en að búa til eitthvað nýtt sem við höfum í rauninni ekki hugmynd um hvort virkar eins og sagt er að það eigi að virka? Það er ekki einu sinni reynt að rökstyðja það.

Í allri umræðunni undanfarið ár höfum við talað um að nýsköpun sé framtíðin, að ef við ætlum að vinna okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í núna, sem er öðruvísi en sú síðasta þar sem okkur var reddað að lokum þegar náðist, eða ekki, að halda á floti ýmsum greinum samfélagsins með framlagi fallinna slitabúa sem greiddu upp þær skuldir sem ríkissjóður hafði safnað og rúmlega það. Við höfum ekkert svoleiðis núna. Í rauninni eru engin lán eða ábyrgðir sem við getum gengið á eftir tíu ár eða svo og innleyst fyrir þeim útgjöldum sem við leggjum leggja til, til að bregðast við niðursveiflunni vegna faraldursins. Þess vegna verðum við að byggja okkur út úr faraldrinum, eins og talað er um, efla verðmætasköpun og efla velsæld til þess að það sama gerist ekki og í síðasta hruni, að fólk falli á milli skips og bryggju, og til þess að byggt sé á sterkum stoðum þegar hagkerfið fer aftur af stað, en ekki óstyrkum stoðum, t.d. því gullgrafaraæði sem var í ferðaþjónustunni og í bönkum áður fyrr.

Við hér á Íslandi erum mjög gjörn á að reiða okkur á svokallað hvalrekahagkerfi. Fullt af ferðamönnum skolar hér á land og við sökkvum okkur í þá möguleika. Við hugsum ekki um sjálfbærni, við hugsum bara um að græða eins mikið á þessum hvalreka og við getum, þangað til hann er uppurinn og við getum ekki annað en sprungið. Við búum bókstaflega til bólu. Þess vegna hefur verið sagt frá upphafi þessa faraldurs að hann verði bara stuttur, ferðaþjónustan komi aftur, að við ætlum að fara á fullt skrið og leggja — voru það 1,5 milljarðar í markaðsátak fyrir ferðamenn síðasta vor? Stefna stjórnvalda var að bíða af sér faraldurinn og vera viss um að hafa auglýst nægilega mikið til að ferðamenn myndu flykkjast til landsins aftur þegar faraldrinum væri lokið, þrátt fyrir álagið á innviði á Íslandi vegna ferðamanna og skortinn á uppbyggingu innviða samhliða aukningunni.

Sú stefna er í rauninni enn í gildi; að bíða bara þangað til faraldurinn klárast. Þá komi ferðaþjónustan og reddi öllu aftur. Mjög fátt hefur bent til annarrar stefnu. Vissulega er smávegis sett í nýsköpun. Framlagið tvöfaldaðist í fyrsta fjárauka ríkisstjórnarinnar, úr 1,5 milljörðum upp í 3 milljarða, minnir mig. Á meðan lagði stjórnarandstaðan til 9 milljarða framlag til nýsköpunar. Í sumarlok, þegar ljóst var að faraldurinn var ekkert að fara, kom í ljós að það var rétt upphæð. 9 milljarðar hefðu verið viðeigandi innspýting í nýsköpunarumhverfið á Íslandi á þeim tímapunkti. Í stað þess voru það bara 3 milljarðar og atvinnuleysið jókst og jókst. Stjórnvöld brugðust ekki við því.

Ef nýsköpun á að vera framtíðin er ekki góð hugmynd að henda út því fyrirkomulagi sem við höfum í slíku ástandi og hafa ekkert, enga sýn, enga tillögu um hvað eigi að taka við. Það er svo augljóst að það er röng aðferð til að koma til móts við ástandið sem var hér síðasta vor. Ráðherra tók ákvörðun í febrúar, stuttu áður en faraldurinn skall á Íslandi, sem þá var vísir að faraldri og maður hefði kannski ekki giskað á að hann yrði eins mikill og síðar varð. En það er á herðum stjórnvalda að búast við hinu versta og vona það besta. En búist var við hinu besta og vonast eftir því besta. Það var ekki mikil varfærni á ferð hjá stjórnvöldum. Það hefði auðveldlega verið hægt að leggja til meiri fjármuni. Ef faraldurinn hefði farið betur en á horfðist hefði ekki þurft að nota þær fjárheimildir að fullu. Það er í fína lagi að gera það svoleiðis. Hins vegar eltu stjórnvöld hverja krísuna á fætur annarri eftir því sem faraldurinn dróst á langinn. Þau voru aldrei á undan. Það var stefnan hér í upphafi. Það kom mjög skýrt fram að bregðast átti við eftir þörfum. Það þýddi líka að alltaf var brugðist við of seint, eftir þörfum en ekki áður en þörfin sagði til sín.

Ef við ætlum að vera nýsköpunarland, eins og reynt hefur verið að skipuleggja síðan um aldamótin þegar nýsköpun átti að verða fjórða stoðin — hún átti í rauninni að verða stóra stoðin í atvinnulífi Íslendinga en þá kom bankabylgjan, allir hrúguðust á hana og nýsköpunin gleymdist. Svo kom ferðamannabylgjan og nýsköpunin gleymdist. Nú, þegar allir eru sammála um að lausnin út úr þessu ástandi sé nýsköpun og að við þurfum breiðan vettvang fyrir atvinnuvegi á Íslandi en ekki þá einhæfni sem verið hefur í atvinnulífinu, þá er þetta svarið: Hendum út því sem við höfum og hefur virkað. Ekki er hægt að neita því að það hefur virkað. Ég tala oft um menntakerfið. Það þarf að breyta til í menntakerfinu, en þá þarf að rökstyðja að það sem tekur við sé betra en það sem er núna, því að það sem er núna virkar. Það virkar ekki eins vel og við myndum vilja, það virkar ekki eins vel fyrir alla og við myndum vilja. Það sama átti við um nýsköpunarumhverfið áður en ráðherra ákvað að henda öllu burt: Það virkaði. En það er mjög óábyrgt að henda því burt án þess að hafa neinar tillögur, neina sýn um hvernig nýsköpunarumhverfi verður í nýju umhverfi og að hvaða leyti það verður betra. Það er gríðarlega óábyrgt, það er algjört klúður, hæstv. ráðherra.

Þetta frumvarp og afgreiðsla meiri hluta Alþingis er bara redding. Það á að redda klúðri ráðherra í kjölfar þess að ákveðið var að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð út af hugmyndafræði, ekki af því að það hafi verið góð hugmynd heldur vegna hugmyndafræði. Ég ætla þá að segja og vera mjög skýr: Það getur vel verið að þetta fyrirkomulag sé betra en það fyrirkomulag sem var, en það afsakar ekki röð atburða; að henda út því sem við höfum áður en við tökum upp nýtt skipulag. Áður en við leggjum eitthvað niður þurfum við að sjá fyrir hvernig nýtt fyrirkomulag muni virka til að við getum borið nýtt fyrirkomulag saman við gamla fyrirkomulagið. Þá getum við vegið og metið kosti og galla þess að breyta til.

Við erum á þeim stað í dag að verið er að gera þá breytingu að stofna einkahlutafélag sem er undanþegið lögum um einkahlutafélög en upplýsingalög gilda um starfsemi þess. Að hvaða leyti er það félag öðruvísi en stofnun þegar allt kemur til alls? Hvers konar merkimiðapólitík erum við eiginlega að stunda þegar hugmyndafræði flokks hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er að minnka báknið? Hvers konar merkimiðapólitík er það í rauninni þegar báknið er minnkað með því að stroka út stofnun og breyta henni í einkahlutafélag sem á að hlíta upplýsingalögum? Í alvöru? Ég skil þetta ekki. Ég skil ekki þá vegferð sem stjórnin er á.

Eins og komið hefur fram í umsögnum hefur það komið niður á þeirri þekkingu og starfsemi sem verið hefur innan nýsköpunargeirans hjá Nýsköpunarmiðstöð og úti um allt land. Vissulega hefur þurft að bæta um og gera betur, en augljóslega var ákvörðunin skemmdarverk, bara einfalt skemmdarverk. Starfsemin núna er allt önnur en þegar ákvörðunin var tekin og það er ekki enn þá búið að laga það. Við erum í þessum vanda akkúrat núna þangað til þessi lög taka gildi og í rauninni þangað til þau eru farin að virka, sem tekur líka tíma. Þetta er millibilsástand sem hefur varað frá því í febrúar í fyrra og mun vara í nokkra mánuði í viðbót, væntanlega þar til í upphafi næsta árs eða eitthvað því um líkt. Eftir tvö ár verður nýsköpunarumhverfið hvað varðar frumkvöðla á fyrsta til þriðja stigi, sem hv. þm. Smári McCarthy talaði um áðan, í lamasessi miðað við hvernig ástandið var fyrir ákvörðun ráðherra. Það er rosalega mikil ábyrgð í nákvæmlega því ástandi sem við erum í núna þar sem við viljum leggja áherslu á nýsköpun. Við þurfum þessa aðstoð til að koma öllum þeim hugmyndum í gagnið sem eru úti um allt land. Eins og fram kom í andsvörum áðan var hlutfall samþykktra umsókna í Tækniþróunarsjóði síðasta haust 8%, minnir mig. Það er munurinn á því sem var gert og því sem hefði verið hægt að gera. Einungis 8% af því sem hefði verið hægt að gera var gert. Meðal annars þess vegna erum við með 12,5 % atvinnuleysi.