151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einfalda svarið er jú. Það kemur fram í greinargerðinni að mótuð verði umgjörð um stafrænar smiðjur. Það ætti að vera löngu búið að því til að byrja með. Ég og hv. þingmaður lögðum fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu og aðgengi að stafrænum smiðjum og ég taldi okkur vera mjög hógvær í þeirri tillögu því að við þorðum kannski ekki alveg að taka skrefið til fulls. Fyrsta skrefið væri að ná til allra sem voru á framhaldsskólaaldri, það væri svona rökrétt fyrsta skref og ekki of stórt og fólk myndi ekki segja að það væri allt of mikið og ekki hægt að gera þetta allt í einu og svoleiðis. En nei, þingið tók þessari þingsályktunartillögu opnum örmum og bætti í, bætti einmitt aðgengi fyrir grunnskólanema, jók umfang þeirrar þingsályktunartillögu á æðislegan hátt. Það var frábært hvernig þingið tók þeirri þingsályktunartillögu. Eins og hv. þingmaður sagði var hún samþykkt af öllum sem greiddu atkvæði. Þrátt fyrir það hefur í rauninni ekkert gerst vegna þeirrar tillögu, ekki einu sinni núna. Á öllu þessu kjörtímabili höfum við beðið eftir næstu fjármálaáætlun sem myndi sýna það myndarlega hvernig stjórnvöld hyggist bregðast við einróma ályktun alls þingsins um ekki bara þá hluti sem við hv. þingmenn lögðum fram heldur einmitt þær viðbætur sem þingið og stjórnarmeirihlutinn tók þátt í að bæta við þá tillögu. Það var að mínu mati tiltölulega mikill sýndarleikur af hálfu stjórnvalda, að sýna þetta en gera síðan ekkert í því.