151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á svolítið áhugaverðan punkt í andsvari sínu sem er sú staða sem við erum í í dag með allt of mikið atvinnuleysi, óvenjumikið atvinnuleysi fyrir Ísland. En málið er að í síðustu kreppu var viðbragðið einmitt það að Nýsköpunarmiðstöð setti af stað gríðarlega skapandi verkefni sem var búst inn í það að hjálpa fólki við að skapa hugmyndir, bæði að fá hugmyndir en líka að gera þær að raunveruleika. Það verkefni skapaði í raun ótrúlega mikinn fjölda starfa í framhaldinu. Mörg hver voru í ferðaþjónustu sem reyndist vera okkar björg út úr síðustu kreppu. En ég held nefnilega að það skorti verulega á slík verkefni í þessari kreppu, ef við eigum að tala um kreppu, eða í þessari erfiðu stöðu sem við erum í núna. Það vantar einmitt þennan aðila sem stígur svolítið fram og segir: Ertu með hugmynd, langar þig til að skapa störf? Við erum hér, komdu til okkar og við skulum hjálpa þér að skapa þau. Þess vegna held ég að hv. þingmaður hafi komið inn á mjög mikilvægan punkt.

Spurningin er: Erum við að glata þessu tækifæri með því að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður þegar við hefðum kannski frekar átt að setja búst í starfsemina? Vissulega þarf að breyta til, við þurfum að gera breytingar. En hefðum við ekki einmitt frekar þurft að keyra á aukinn stuðning við þetta umhverfi í stað þess að leggja það niður?