151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé mikil hætta á því að við glötum þeim tækifærum sem þó er að finna í svona hræringum. Ég minni á orð fulltrúa Space Iceland á fundi hjá okkur. Það er ákveðinn misskilningur sem felst í því að umrót og áföll búi í sjálfu sér til nýsköpun. Það þarf stuðning, það þarf að vera umhverfi sem tekur utan um það, annars verður áfallið bara skaði. Ég vona að ég sé ekki að umorða þau orð of mikið, en ég trúi þessu. Ég held að nú sé veruleg hætta á því að sú reynsla sem er til staðar í nýsköpunarumhverfinu, þar á meðal hjá starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, leiti annað en til þessa nýja fyrirkomulags sem við ætlum að setja lög um, það kemur í ljós, vegna þess hvernig staðið hefur verið að þessu.

Ég hef spjallað við starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar innan og utan funda Alþingis. Það er einhugur meðal þeirra sem ég hef talað um að það væru hlutir sem mætti breyta. Þetta er fólk sem vill vinna við nýsköpun, finnst það spennandi umhverfi, finnst gaman að sjá þessi tækifæri nýtast og blómstra, er með sínar eigin sjálfstæðu hugmyndir sem ég kann ekki öll deili á vegna þess að ég hef ekki þessa sérfræðiþekkingu og ekki við þingmenn almennt. Þess vegna myndi ég vilja nýta þekkingu þess starfsfólk. Þess vegna er svo vont að þessi vegferð sé í reynd hafin af framkvæmdarvaldinu jafnvel áður en búið er að lögfesta frumvarpið. Það er svo ofboðslega skaðlegt vegna þess að jafnvel þó að frumvarpið yrði fellt hér í þingsal er skaðinn samt orðinn svo mikill, bara með því að hefja vegferðina strax.

Ég get ekki talað fyrir starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, en ef ég væri starfsmaður í þessum aðstæðum þá er ég ekkert viss um að ég væri ofboðslega spenntur fyrir því að prófa nýja fyrirkomulagið (Forseti hringir.) miðað við þessa framkomu. En auðvitað vona ég að það sé freistandi, auðvitað vona ég að sem mest af þessari þekkingu miðlist áfram og verði áfram nýtt í nýja fyrirkomulaginu og auðvitað vona ég að það gangi sem best.