151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef við horfum á þær breytingar sem hv. þingmaður taldi hér upp þá er hægt að bæta við breytingunum á Samkeppniseftirlitinu. Það er sem sagt FME, það er Samkeppniseftirlitið, það er Neytendastofa, skattrannsóknarstjóri og svo er það nýsköpunin. Ef við hugsum hvað er sameiginlegt með þessu þá eru þetta allt, fyrir utan nýsköpunina, eftirlitsstofnanir sem eiga að gæta að hag almennings. Við höfum heyrt Sjálfstæðismenn tala um eftirlitsiðnaðinn og að markaðurinn eigi einhvern veginn að hafa eftirlit með sjálfum sér og hvernig þetta er allt saman í þeirra huga. Ég held að þetta séu bara mjög ákveðin skref sem tekin eru til þess að taka niður neytendavernd og eftirlit með því hvernig gætt er að hag almennings. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur bara gert góðan skurk í þessu, eins og hv. þingmaður benti á með upptalningu sinni.

Hins vegar sker þetta frumvarp sem við ræðum hérna sig aðeins úr af því það er ekki eftirlitsstofnun í því eins og hinum. En þetta varðar nýsköpun og umgjörð um nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þetta stingur svolítið í stúf af því að verið er að leggja niður eina stofnun en stofna aðra með einhverjum óljósum markmiðum um hvað verður um góða starfið sem þó átti sér stað (Forseti hringir.) í nýsköpun. Mér finnst mynstrið vera það að draga eigi úr eftirliti og fækka stofnunum (Forseti hringir.) en það rímar ekki alveg við það sem er að gerast í því nýsköpunarfrumvarpi sem við ræðum hér.