Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

útvegun bóluefnis og staða bólusetninga.

[13:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að ljá máls á þessu mikilvæga máli. Fyrst vil ég segja að þeir samningar sem nú þegar eru í gildi í gegnum Evrópusambandið, sem snúast um bóluefni frá mörgum framleiðendum, miða við þær upplýsingar sem við höfum. Það verður allt sagt með þeim fyrirvara að það geta komið snurður á þráðinn, eins og nú hefur gerst í tilfelli AstraZeneca, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir og hefur skilning á, en við teljum að við munum geta staðið við þær áætlanir sem höfum áður kynnt, þ.e. að verulegur meiri hluti landsmanna verði bólusettur fyrir mitt ár.

Hv. þingmaður spyr: Hvað með aðrar leiðir? Því er til að svara að þar höfum við að sjálfsögðu verið að skoða önnur efni sem ekki eru inni í þessum Evrópusamningum, m.a. efnið Sputnik V, framleitt í Rússlandi. Það hefur verið til sérstakrar skoðunar á vegum heilbrigðisráðuneytisins hvort unnt sé að bæta því inn í þau bóluefni sem við nýtum, en niðurstaða er ekki fengin í það mál.

Hv. þingmaður nefndi síðan sérstaklega opnunaráætlunina sem dönsk stjórnvöld hafa kynnt og miða þar við framvindu bólusetningar. Því er til að svara að við höfum leitast við að leggja mat á hvað það þýðir þegar við erum komin niður í til að mynda 60 ára aldur í bólusetningum. Það er ljóst að miðað við þær upplýsingar sem við höfum núna munu t.d. þau tímamót þýða að áhættan á alvarlegum veikindum, innlögnum og dauðsföllum dregst verulega saman, sem þýðir að við getum stigið ákveðin skref til að auka eða draga úr sóttvarnaráðstöfunum. Ný afbrigði vekja okkur hins vegar áhyggjur og einnig Dönum, sérstaklega (Forseti hringir.) þetta breska afbrigði sem gögn virðast benda til að leggist á ungt fólk í auknum mæli og valdi þar alvarlegum veikindum. (Forseti hringir.) Ég kem nánar að því í mínu síðara svari.