151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er heldur betur sammála þessu. Við búum í alþjóðlegu umhverfi. Allt sem við gerum á Íslandi gerist í því umhverfi. Við lifum ekki í tómarúmi og við verðum svolítið að hætta að láta eins og við búum í tómarúmi. Ég hef t.d. margítrekað nefnt, og nefndi í ræðu minni á fimmtudaginn síðastliðinn, alla vega í einhverri ræðunni þann daginn, að eitt af tækifærunum sem hefði farið forgörðum væri innganga í Geimvísindastofnun Evrópu. Það myndi sennilega kosta Ísland í kringum 70–80 milljónir á ári, líklegast, en myndi skila sér til baka í aðgengi að sjóðum þar sem t.d. einstök fyrirtæki gætu fengið stuðning — ég held að upphæðin sem þau nefna sé 1,5 milljónir evra, sem er töluvert meira en 70–80 millj. kr. ef mér reiknast rétt til. Þannig að það þyrfti ekki nema eitt fyrirtæki að hljóta einn styrk af þeirri stærðargráðu til að við sæjum að nokkrir áratugir af þátttöku í Geimvísindastofnun Evrópu væru búnir að borga sig. Það er fyrir utan allan annan ávinning sem fylgir því að taka þátt í svoleiðis starfi. Það mætti líka nefna alls konar sjóði innan Evrópusambandsins. Það mætti líka nefna ýmiss konar hluti eins og Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er ekki aðili að. Fæstir á Íslandi, held ég, átta sig á því hvað Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna gerir, en það er ekki ekkert get ég sagt. Það er í rauninni fjölmargt sem snýr að því að reyna að miðla þekkingu og reynslu, m.a. úr einkageiranum til annarra fyrirtækja úti um allan heim og byggja (Forseti hringir.) þannig upp sterkari viðskiptasambönd, sem er jú allur tilgangurinn ef markmiðið er að græða pening.