151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Misbeiting valds eru stór orð en ég held að það sé hægt að segja að hér hafi verið gengið fram af fruntaskap, við getum orðað það þannig, og þá ætla ég aftur að vitna í starfsfólkið sem þarna er búið að vinna, margt með áratugastarfsreynslu. Þetta eru einstaklega gamaldags vinnubrögð. Við erum hér með yngsta ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem verður væntanlega kyndilberi síns flokks inn í framtíðina, með hálfrar aldar gömul vinnubrögð eða meira. Þetta er ekki góð ávísun á það sem koma skal. Eitt af því viðkvæmasta sem menn gera þegar svona breytingar fara fram eru áhrifin á þá sem eru fyrir í starfi hjá viðkomandi stofnun og eiga nota bene sinn rétt, eiga sinn rétt, herra forseti, og hann er ótvíræður. Ég kann svo sem ekki að meta það í þessu tilfelli hvort það sé þannig með þetta mál og hvernig hefur verið farið fram, t.d. gagnvart starfsmönnunum sem þarna voru, að þar hafi t.d. skapast bótaréttur. En það kæmi mér ekkert sérlega mikið á óvart því að það er farið þarna fram af fullkomnu skeytingarleysi.