151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem ég var að ræða hér var að sú ákvörðun um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð hefur leitt af sér mikla óvissu á margvíslegum sviðum í þessu nýsköpunarumhverfi öllu, náttúrlega fyrir starfsfólkið á þessu erfiða árið 2020 o.s.frv. Ég leyfi mér að bæta við að þarna hefði jafnvel verið unnið tjón. Þarna var ákveðin eining sem komin var mikil reynsla á og hvílir að sumu leyti á gömlum merg, sem er Rannsóknastofa byggingariðnaðarins. Nú er þetta einhvern veginn leyst upp án þess að í frumvarpinu sé endilega gert grein fyrir því hvernig þeim málum verði ráðstafað. Það kemur þá í hlut hv. atvinnuveganefndar að reyna að sparsla í sprungurnar og það er það sem er leitast við að gera. Þetta var mjög mikið rætt í nefndinni. Það var öllum mjög fljótlega ljóst að þetta mál væri haldið mjög alvarlegum ágöllum. Síðan er það þannig að menn sjá þarna álit meiri hluta og það er afrakstur af því samtali sem átti sér stað innan nefndarinnar og sjálfsagt líka á vettvangi meirihlutafólksins. Við erum þarna með tvö minnihlutaálit þar sem við nálgumst málin með svipuðum hætti. Í lokaorðum mínum lýsti ég því hversu hugsi ég væri yfir því að þetta mál væri komið fram og að gengið væri fram með þeim hætti að það væri unnið hérna — ja, ákveðið tjón sem felst þá í því að þessi samhenta eining er ekki lengur fyrir hendi.