151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Já, þetta er ákveðið hálfkák, þetta eru fögur fyrirheit og fögur orð og örugglega góð fögur meining líka sem liggur þarna að baki og góður og göfugur ásetningur, en svo er eins og framkvæmdin lendi hálfpartinn í skötulíki vegna þess að ekki fylgir fjármagn. Það er eins og ekki fylgi alveg vitund um það að þessir hlutir kosta og það þarf að verja nokkru fé til að halda svona hlutum við, eigi að vera einhver mynd á starfseminni.

Mig langar í seinni spurningu að víkja að öðru sem líka er ámálgað í téðu nefndaráliti hv. 1. minni hluta nefndarinnar. Þar segir um tæknisetur, hið breytta rekstrarfyrirkomulag, að Háskóli Íslands hafi bent á í umsögn sinni að þetta breytta félagaform gæti haft áhrif á styrkjamöguleika félagsins í einhvern tíma, einkum gagnvart Evrópusambandinu, en einkahlutafélag þurfi alltaf einhvern tíma til að öðlast trúverðugleika til að standa undir kostnaði af sumum langtímaverkefnum sem opinberar stofnanir þurfa ekki.

Telur hv. þingmaður að þarna sé líka að finna áhyggjuefni sem gæti verið umtalsvert?