151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og reyndar nefndinni allri fyrir þetta nefndarálit og breytingartillögur og ég efast ekki um að það hafi verið úr vöndu að ráða. Eins og ég sagði við fyrri umr. um menntastefnuna þá átta ég mig á því að það er alltaf erfitt að forgangsraða þegar marka á stefnu og við viljum ekki hafa hana of stóra og mikla. Ég sé að hér hefur nefndin bætt einhverju við, er með einhverjar breytingartillögur. Ég ætla bara að segja að mér líst í fljótu bragði mjög vel á þetta og ég efast ekki um að það hefur farið mikil vinna í þetta. Það er auðvitað rosalega gott að við séum komin fram með menntastefnu. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Í kjölfarið er auðvitað mikilvægt, eins og hv. nefnd orðar ágætlega í nefndarálitinu, að ákveðin forgangsröðun sé þá gerð, það er kannski ekki hægt að ná öllum markmiðunum í einum áfanga.

Þá er ég aðeins að velta fyrir mér kynjanálguninni. Ég heyrði hluta af ræðu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur áðan fjalla um þetta mál varðandi drengina okkar og ég sé minnst á það í nefndarálitinu. Ég veit ekki hvort ég skil það rétt að það sé engin breytingartillaga sem lýtur að því beint. Ókei, þá skil ég það rétt. Ég velti því fyrir mér hver umræðan er, hvað nefndin sá fyrir sér að við þyrftum að gera í þeim efnum. Það er kafli í nefndarálitinu sem heitir Jöfn tækifæri fyrir alla, það er talað um fötlun, erlendan uppruna, fólk af landsbyggðinni og svo þegar kemur að kynjanálguninni er talað um að fjölga þurfi áföngum í jafnrétti og kynjafræði. En ég velti fyrir mér: Þurfum við ekki líka að vera með stefnu um að það sé ekki svona kynjuð nálgun í fræðsluefninu þannig að við nálgumst kynin með ólíkum hætti? Við sjáum að drengir virðast (Forseti hringir.) ekki vera að finna sig nægilega vel í skólakerfinu, þeir ná ekki sama árangri og stúlkur. Spurningin er þá: Þurfum við ekki að breyta einhverju (Forseti hringir.) í kerfinu sjálfu til að bjóða þeim hreinlega betri fræðslu, sem hentar þeim?