151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:17]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég bað um að fá að veita andsvar þá var hv. þingmaður ekki enn farinn að tala um læsi, það var sem sé það sem mig langaði til að eiga orðastað við hv. þingmann um, sem ég þakka kærlega ræðuna. Við ræddum nokkuð um þetta á fundum nefndarinnar og vorum svolítið á einu máli um að þarna mætti margt betur fara. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, í ljósi reynslu sinnar sem kennari og reynslu af störfum í skólakerfinu, hvernig hún metur þjóðarsáttmála um læsi sem nú er komin allnokkur reynsla á. Átakið hófst haustið 2015 og ekki er að sjá að þar hafi yfirvöld haft árangur sem erfiði. Það blasir a.m.k. ekki við vegna þess að allar kannanir segja okkur að læsi hafi hrakað stórlega á þeim tíma sem þetta mikla og kostnaðarsama þjóðarátak hefur átt sér stað. Getur hugsast að að baki þessu átaki liggi einhver grundvallarmisskilningur á því hvernig á að kenna að lesa og að áherslur séu þarna bara yfirleitt rangar?