151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[20:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg hans hér um lýðheilsumál. Ég get alveg tekið undir að það er kannski eitt af því sem við gleymum stundum, hvort sem við erum að búa til stefnur eða eitthvað annað, að þetta tali saman. Það er talað um að mikilvægt sé að kennarar, nemendur og annað fagfólk vinni saman, að það skili betri árangri, og auðvitað eiga stefnurnar að tala saman. Þetta var kannski nálgun hjá ráðherra í því að ræða heilsueflingu, geðrækt, forvarnir og vellíðan. Það má svo sem alveg segja að þó að orðið lýðheilsa komi ekki fyrir þá sé það sem ég taldi upp sannarlega hluti af lýðheilsu. Eins og þingmaðurinn nefndi þá er þetta ekki tæmandi stefna. En ég get tekið undir það að allt það sem skerpir á heilsueflingu á þeim mótunarárum sem skólastigið spannar, alveg frá leikskóla og upp úr, sérstaklega kannski á grunn- og framhaldsskólastiginu þar sem mikið er í gangi, er mikilvægt og í aðalnámskrá skólanna er töluverð áhersla lögð á lýðheilsu. En það er alltaf hægt að gera betur. Þetta er eflaust eitt af því sem ráðherra málaflokksins, sem á að gera aðgerðaáætlun, getur farið vel inn á kjósi hann að gera það og gert þessu enn betri skil en hv. þingmaður telur að sé heppilegt að gera í D-lið.