151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann, ekki bara vegna þess að mér þykir texti tillögunnar skáldlegur, hann er svo knappur að hver aðgerð er næstum eins og hæka, heldur vegna þess að hann ræddi mikið um lestur og læsi. Það á að vera leikur að læra en það á líka að vera leikur að lesa. Í umfjöllun nefndarinnar er vikið að mikilvægi bókasafna, sérstaklega skólabókasafna, vegna þess að eitthvað þurfa að börnin að lesa ef þau eiga að ná öllum hæfniviðmiðum í læsi. En bókasöfnin verða ekki til í tóminu. Þá verður mér hugsað til skýrslu starfshóps um námsárangur drengja sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg fyrir áratug þar sem var fjallað um þessi sömu mál; lestrarvanda drengja, líðan stúlkna í skólakerfinu og allt þetta. Þar var m.a. tillaga um samstarf bókaútgefenda, Reykjavíkur og Námsgagnastofnunar til að ýta undir, ekki aukna útgáfu námsbóka heldur bara bóka fyrir ungt fólk. Ég spyr hvort það sé ekki hluti af vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Læsi sprettur ekki úr auðum jarðvegi heldur sprettur það t.d. upp úr skólabókasöfnum sem eru að springa af nýjum og spennandi bókum, þýddum og frumsömdum, metnaðarfullum útgáfum (Forseti hringir.) sem eru aðgengilegar börnunum. Þurfum við ekki að skoða þennan þátt og var það rætt í nefndinni, frekar en að nefna bókasöfnin bara almennum orðum? (Forseti hringir.) Þurfum við ekki að ræða það sem er í bókasöfnum?