151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athyglisvert svar. Ef ég hef tekið rétt eftir þá nefndi hv. þingmaður í ræðu sinni að það væri kannski leiðin til að bæta kjör kennara að fleiri karlmenn kæmu inn í stéttina. En spurningin er: Hver á að borga launin? Þurfum við ekki að gera ráð fyrir þeirri aukningu eða bættum kjörum kennara í fjármálaáætluninni sem og fyrir hið opinbera, sem eru sveitarfélögin? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér kjarabæturnar og hvaðan þær eiga að koma inn í skólakerfið ef þær eiga ekki að koma með auknum fjárframlögum frá því opinbera? Síðan eru ríkar áherslur á starfsnám í þessari stefnu. En starfsnám er mun dýrara en bóklegt nám. Það er ekki hægt að para bara nemanda á móti nemanda í bóklegu námi og verklegu námi. Við munum mæta miklum tækniframförum og það kostar búnað og verkstæði og allt mögulegt, alls konar aðbúnað í menntastofnunum sem mun kosta peninga. Ég fullyrði það, eftir að hafa eytt fyrri hluta starfsævi minnar í að reka starfsmenntaskóla, að það er ekki hægt að auka starfsmenntun með því að para saman nemendur í bóknámi við nemendur í starfsnámi. Það þarf aukin fjárframlög, bæði í tæki, búnað og í mannauð til þess að kenna tæknina.