151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki nógu gamall til að hafa nokkurn tímann átt ávísanahefti en ég velti því fyrir mér hvort þessi kafli um vellíðan í skólakerfinu, þessi kafli um geðrækt, sé ekki bara gúmmítékki, hvort það séu ekki bara innantóm loforð um eitthvað sem er ófjármagnað og ekkert annað en hugmynd. Það er náttúrlega ekkert sérstaklega falleg framsetning af hálfu ráðherra.

En mig langaði ekki að dvelja meira við það heldur datt mér í hug — hv. þingmaður talaði um brýrnar á milli skólastiga og ég er henni hjartanlega sammála að þar þurfi aukinn sveigjanleika, það er bara hluti af því að láta skólakerfið endurspegla betur þann fjölbreytileika fólks sem fer í gegnum það. Mig langar aðeins að ræða við hv. þingmann um fyrstu brúna sem er brúin inn í leikskólann. Við erum nýbúin að samþykkja lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum upp í tólf. Á móti þarf að byggja brú af hálfu sveitarfélaganna þannig að börn eigi þess kost að byrja í leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi. En það gengur ekkert með þá brúarsmíði, síst af öllu núna þegar sveitarfélögin eiga í verulegum erfiðleikum vegna tekjumissis í Covid og aukinna útgjalda. Þykir formanni velferðarnefndar ekki stefna í óefni í þeim málum innan ekki svo langs tíma? Við erum að tala um að á næsta ári nái fyrsti árgangur barna úr (Forseti hringir.) lengdu fæðingarorlofi því að verða eins árs.