151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

störf þingsins.

[13:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Skortur á íbúðarhúsnæði er og hefur verið viðvarandi vandamál í mörgum byggðum landsins og hefur vöntun á íbúðum víða hindrað atvinnuuppbyggingu og samfélagsþróun. Ný skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins staðfestir að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum byggðanna á allt of löngum köflum. Nú er hins vegar umtalsverð uppbygging hafin og áform uppi sem m.a. má rekja til nýrra stuðningskerfa ríkis og sveitarfélaga. Sú vinna er á fljúgandi ferð undir forystu hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar.

Í gær var vefurinn Tryggð byggð, samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni, opnaður. Auk þess að vera upplýsingavefur er Tryggð byggð samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni. Í gegnum vefinn er aðgengi að heildstæðum upplýsingum stórbætt og hægt að finna á einum stað allt það helsta um húsnæðismálin úti um landið. Á vefnum eru aðgengilegar upplýsingar um verkfærin og stuðningsaðgerðir ríkis og sveitarfélaga sem nú eru komin í notkun og geta nýst sem hvatar til húsnæðisuppbyggingar. Það eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög, byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og fleira. Á vefnum eru einnig upplýsingar um húsnæðisverkefni sem nú er unnið að og það sem er að gerast í húsnæðismálum í byggðum um land allt, svo sem á Húsavík, Akureyri, Dalvík, Egilsstöðum, Hörgárbyggð, Þingeyjarsveit, Kópaskeri, Fáskrúðsfirði, Borgarfirði eystra, Djúpavogi og miklu víðar. Þessu er hægt að fletta upp eftir landshlutum. Þessi vefur sýnir svart á hvítu að stöðnunin og frostið í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hefur verið rofið eftir langt hlé. Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem eru að huga að byggingu húsnæðis á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum.