151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að hafa hér menntastefnu en hún þarf að vera skýr og afmörkuð og þannig gerð að hægt sé að vinna eftir henni. Það á svo sannarlega að vera leikur að læra en því miður er það ekki þannig með öll börn í íslensku menntakerfi.

Þá vil ég taka undir orð formanns hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég hef líka verulegar áhyggjur af stöðu drengja í skólakerfinu og kem hingað upp til að hvetja hann til að koma máli þingflokks Samfylkingarinnar áleiðis þar sem skorað er á hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að koma með markvissa, fjármagnaða og tímasetta aðgerðaáætlun til að bæta stöðu drengja í íslensku skólakerfi.