151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég verð að segja að mér finnst þessi áætlun vera metnaðarlaus þegar kemur að þessum málum. Þetta snýst allt um það að sníða þetta gagnvart einhverju skuldahlutfalli. Þá spyr maður sig: Þegar atvinnuleysið er svona gríðarlega hátt er þá skuldahlutfallið aðalatriðið? Atvinnuleysi kostar þjóðarbúið gríðarlegar upphæðir og það veit hæstv. fjármálaráðherra. En það er líka rætt um það í þessari áætlun að ef frávik verði þurfi að ráðast í afkomubundnar ráðstafanir, eins og segir í áætluninni. Það bendir allt til þess að það verði frávik. Við erum að horfa á stöðuna í veirufaraldrinum, bæði hér heima, þessar nýju slæmu fréttir, og svo úti í Evrópu þannig að ég held að spár um komu ferðamanna séu mjög bjartsýnar. En hins vegar er ekki gert ráð fyrir því í þessari áætlun hverjar ráðstafanirnar eru vegna þess að það er náttúrlega óþægilegt fyrir ríkisstjórnina á kosningaári. En er þá ekki nauðsynlegt að gera grein fyrir því og getur hæstv. ráðherra gert grein fyrir því? (Forseti hringir.) Þarf þá ekki væntanlega að fara í niðurskurð upp á a.m.k. 100 milljarða, til að ná niður skuldahlutfallinu sem hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) er svo fast bundinn í en horfir ekki í þessar gríðarlegu atvinnuleysistölur?

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)