151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 2022–2026, eiginlega stórmerkilegt að við skulum vera að ræða það plagg í dag þegar það er í sjálfu sér orðið gjörsamlega úrelt. Fjórða bylgja Covid er komin af stað og í þessu plaggi er t.d. reiknað með um 700.000 ferðamönnum í ár og 1,3 milljónum á næsta ári sem er mikil bjartsýni. Af hverju er þessi fjármálaáætlun svona slæm? Það er einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin hefur brugðist algjörlega. Hún brást í því að sjá ekki til þess að veiran kæmist ekki inn í landið aftur, því miður. Og síðan er hitt að þessi fjármálaáætlun er hvorki fugl né fiskur vegna þess sem vantar inn í hana og er ekki einu sinni nefnt á nafn eins og ég benti hæstv. fjármálaráðherra á. Það er ekki sagt frá fátækt í henni, ekki eitt orð, hvað þá sárafátækt. Það er ekki talað um biðraðir eftir mat og það er ekki talað um þann hóp sem þarf að leita sér hjálpar til að fá heita máltíð en hann hefur tvöfaldast núna á stuttum tíma. Í þessari fjármálaáætlun er þessi hópur skilinn eftir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað bent á að þetta sé mjög fámennur hópur en vandamálið sé að fá peninga til þess að hjálpa þessum fámenna hópi. Hjálpa honum til hvers? Jú, hjálpa honum til þess að þurfa ekki að bíða í röð eftir mat, hjálpa honum til að eiga fyrir nauðsynjum út allan mánuðinn. Það er eiginlega stórfurðulegt að það skuli vera hægt að segja það aftur og aftur á Alþingi, í þessum ræðustól, að þetta sé fámennur hópur en ekki sé hægt að hjálpa honum vegna þess að það vanti fjármuni.

Hvað erum við að tala um hér? Við erum að tala um gífurlega fjármuni. Það virðist ekki heyrast múkk um að það vanti fjármuni fyrir fyrirtækin, maður hefur ekki heyrt fjármálaráðherra tala um það, eða að það vanti fjármuni fyrir einhver gæluverkefni ríkisstjórnarinnar. Það vantar ekki fjármuni fyrir það. En það vantar fjármuni og það er ekki hægt að finna þá fyrir fólk sem sveltur.

Þessi ríkisstjórn segir ítrekað að fé hafi verið stóraukið til velferðarmála og í að lækka skatta. Jú, það er rétt. Þeir lækkuðu skattprósentuna en lækkuðu líka persónuafslátt á móti. Hvernig í ósköpunum eigum við að trúa ríkisstjórn sem segist ætla að hjálpa einhverjum þegar hún lækkar persónuafsláttinn en lækkar líka þriðja skattþrepið? Af hverju í ósköpunum létu þeir þá ekki a.m.k. persónuafsláttinn vera eins og hann var eða hækkuðu hann jafnvel? Þá hefðu þeir virkilega verið að hjálpa þeim sem mest þurfa á að halda. Þá hefðu þeir líka getað minnkað persónuafsláttinn hjá þeim sem þurfa ekkert á honum að halda, ekki neitt.

En hvað segir hún okkur, þessi fjármálaáætlun sem þeir eru með hér? Jú, hún segir okkur að hlutirnir eigi að vera svo til óbreyttir. Þeir sem hafa ekki fengið krónu, enga aðstoð frá þessari ríkisstjórn — hæstv. fjármálaráðherra spurði mig að því hverjir þetta væru og ég gat ekki svarað honum þegar hann spurði, en ég svara því núna: Eldri borgarar. Þeir voru skildir eftir í Covid. Þeir eru eini hópurinn sem hefur ekki fengið neina Covid-tengda hjálp, ekki neina. Mega þeir búast við einhverju meira en 3,6% hækkun sem þeir fengu síðast, í verðbólgu sem er komin yfir 4%? Það þýðir mínus hjá viðkomandi.

En hvað stendur í fjármálaáætlun fyrir næstu fjögur árin? Það er reiknað með að neysluvísitalan verði 3,2% í ár, hún er núna 4%, hún verði 2,4% á næsta ári, 2,4% árið 2023, 2,5% 2024, 2,5% 2025 og 2,5% 2026. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að þeir stefna að því að hækka almannatryggingar um þetta hlutfall. Á sama tíma reikna þeir með launahækkunum 2022 upp á 5,4%, 4,3% 2023, 3,9% 2024, 3,8% 2025 og 3,7% 2026. Á hið sama að fara til almannatrygginga? Nei, það hefur aldrei gerst og mun ekki gerast, ekki hjá þessari ríkisstjórn. Þess vegna segi ég að það er löngu tímabært að við gefum þessari ríkisstjórn frí. En verið viss, þeir munu dusta rykið af loforðum og lofa að þeir muni bæta sig. En er það trúlegt? Nei.

Flokkur fólksins hefur lagt fram hvert frumvarpið á fætur öðru til að bæta kjör þeirra sem verst hafa það í þessu landi. En þau daga upp í nefndum. Þessi ríkisstjórn hefur engan áhuga á því að auka velferð allra eða kaupmátt allra en þeir eru alltaf tilbúnir til að verja það að að meðaltali hafi allir það rosalega gott. Þeir sem eru á lægstu launum og bótum borða ekki þetta meðaltal, því miður. Heilbrigðisþjónustan, menntakerfið, framhaldsskólinn — allt fellt. Markmiðin eru rosa flott en staðreyndirnar tala sínu máli. Staðreyndir um samræmdu prófin, stöðu drengja í skólakerfinu. Þegar talað er um að það eigi að stórefla menntakerfið er það trúverðugt? Ekki samkvæmt þessari fjármálaáætlun. Það er ekkert verið að stórbæta það kerfi. Síðan eru þeir að hæla sér af hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna aldraðra. Það er ekki hækkað næstum því eins mikið og þeir voru búnir að lofa. Það var búið að lofa því að stórdraga úr skerðingum almannatryggingakerfisins — hefur það átt sér stað? Nei, því miður.

Við vitum að þeir hafa sett á laggirnar hlutdeildarlán og hæla sér af því í þessari fjármálaáætlun. Því miður var það eins og við var að búast. Upphæðirnar eru allt of lágar þannig að þetta hjálpar ekki þeim sem eru verst staddir, þeir lenda hreinlega í vandræðum í því kerfi.

Hér eru því miður ekkert nema falleg loforð í flottum umbúðum en innihaldið er mjög rýrt. Og það verður þannig áfram ef þessi ríkisstjórn heldur velli. Við höfum dæmi um það að núna er verið að hvetja fyrirtæki til að ráða atvinnuleitendur þannig að þeir sem hafa verið lengst atvinnulausir fá 472.000 kr. á mánuði, sem er flott, mjög gott, en lægstu atvinnuleysisbætur eru 307.000 kr. Síðan koma 270.000 kr. sem margir þurfa að lifa af og svo er hópur sem lifir á 240.000 kr. fyrir skatt. Hefur þessi hópur það gott í boði þessarar ríkisstjórnar? Nei. Mun hann hafa það gott? Nei, vegna þess að fjármálaráðherra sagði: Hvar í ósköpunum eigum við að fá peninga til að aðstoða þennan litla hóp? Þessi litli hópur sem þeir skilja gjörsamlega eftir — þeir finna peninga fyrir alla nema þá sem mest þurfa á því að halda, þennan litla hóp sem hæstv. fjármálaráðherra segist ekki hafa peninga fyrir.