151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:05]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns um hvort ráðherrann sé sáttur við fjármögnun málsins er: Já, hann er fullkomlega sáttur. Ég ætla að rekja það. Þegar við unnum þetta mál var gerð hagræn greining á því sem unnin var af Birni Brynjúlfi Björnssyni hagfræðingi. Hann sendi út mörg hundruð erindi til allra þeirra aðila sem þessi lög munu hafa áhrif á. Þeir skiluðu inn hvað þeir teldu að þetta myndi kosta. Á þeim grunni var síðan reiknaður væntur hagrænn ávinningur af málinu til næstu áratuga. Við vildum fara dýpra í þá greiningu, hvað við teldum að þetta myndi kosta, þannig að við réðum annan utanaðkomandi ráðgjafa, Harald Líndal Haraldsson, sem þekkir sveitarstjórnarstigið vel, til að kafa ofan í þetta. Hann komst að nánast sömu tölu og Björn Brynjúlfur hafði komist að eftir útsend erindi sín. Það eru á bilinu 1,5–2 milljarðar á ári sem þessi kerfisbreyting mun kosta að frádregnum undirbúningi, gagnagrunni, innleiðingarteymi og öðru. Síðan skiptist það bæði á ríki og sveitarfélög. Það sem lýtur að ríkinu er inn á málefnasviði mínu í þessu frumvarpi. Það sem lýtur að sveitarfélögunum er inni í jöfnunarsjóði og hefur verið bætt þar inn. Þannig að málið er fullkomlega fjármagnað til næstu þriggja ára. Við erum líka með það fjármagn sem við þurfum á yfirstandandi ári til að bjóða út sérstakan samskiptagrunn sem á að vera undirliggjandi í þessu kerfi til að aðstoða alla aðila að hafa samskipti í því. Það er verið að undirbúa það útboð, við höfum fjármagn til þess og til að setja upp sérstakt innleiðingarteymi. En við getum ekki sett það útboð af stað fyrr en þingið lýkur afgreiðslu málsins, ef það verða einhverjar breytingar sem lúta að því. Þannig að já, ég er fullkomlega sáttur við fjármögnuninni á málinu og get ekki beðið eftir því að fara af stað að innleiða það þegar þingið verður búið að samþykkja málið.