151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[22:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þegar spurt er um frjálsu handfæraveiðarnar þá er það mjög falleg hugmynd, ég er mjög hrifinn af handfæraveiðum, bara svo það sé sagt, ég er alinn upp við þær. Ég beygi mig hins vegar undir það að auðlindin er takmörkuð. Við munum núna um ókomin ár sjá botnfiskveiðar Íslendinga vera í heildina einhvers staðar um 500.000 tonn. Það verður þar um kring. Við urðum að takmarka sóknina í auðlindina, m.a. til þess að ganga ekki of hratt á hana. Við erum núna í þeirri stöðu að 98–99% af öllum afla sem dreginn er á land fara á erlenda markaði og við erum þar að keppa við stórþjóðir og stórfyrirtæki. Stærstu fyrirtæki Íslendinga á sviði sjávarútvegsins ná ekki inn á topp 30 eða 40 í heiminum. Þetta eru bara lítil fyrirtæki hérna þó að okkur þyki þau stór.

En grundvallaratriði við sölu á afurðum okkar er að þær séu vottaðar af alþjóðlegum gæðafyrirtækjum. Þegar við sækjumst eftir slíkri vottun er fyrsta spurningin: Hvernig stýrið þið þessum veiðum? Stundið þið sjálfbærar veiðar? Og það er bara ein regla í því. Ef maður er með frjálsa sókn í einhverja stofna þá er það stór mínus í þennan vottunarkladda. Það er bara þannig, fyrir utan að það verður með einhverjum hætti að hafa eitthvert þak á þessari sókn. Við höfum hingað til verið að reyna það í strandveiðunum. Við höfum aukið aflann þar á síðustu árum verulega og við erum komin með 11.000 tonn í (Forseti hringir.) strandveiðipottinn og enn er verið að gera kröfu um að hann verði aukinn. Ef við ætluðum að gefa þetta frjálst þá vildi ég gjarnan heyra álit hv. þingmanns (Forseti hringir.) á því hvernig hann telji að sóknin í þessum efnum myndi aukast eða dragast saman. Sér hann (Forseti hringir.) fyrir sér hvernig hún muni breytast?