151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

málefni barna.

[13:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki í svari mínu að blanda sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda saman við stöðu örorkulífeyrisþega eða barna sem búa við erfiðar aðstæður. Hins vegar vil ég segja og ítreka að við höfum stigið skref og gert breytingar með því að hækka aldurinn úr 18 í 20 ár. Við gerðum það á þessu kjörtímabili, í lok árs 2018. Í ljósi umræðu sem hefur síðan skapast og erinda sem okkur hafa borist þá erum við að skoða hvort ástæða sé til þess að gera enn frekari breytingar til að styðja betur við börn og ungmenni sem eru í námi og búa við slíkar aðstæður. Það liggur einfaldlega ekki fyrir nein ákvörðun í því en við erum að teikna upp ýmsa möguleika til þess akkúrat að bregðast við því sem hv. þingmaður var að spyrja að og búa til aukinn hvata fyrir þau ungmenni sem búa við slíkar aðstæður til að halda áfram í námi, svo að þau þurfi ekki að flytjast að heiman, þurfi ekki að fara út á vinnumarkaðinn o.s.frv. og geti haldið áfram að mennta sig.