151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það er auðvitað ánægjulegt ef hægt er að mæla þennan árangur, að hann sé að skila sér. Það er fagnaðarefni. Ég ætla einnig að spyrja um aukið fé til loftslagsmála: Hvað áætlar hæstv. ráðherra að mikið fjármagn fari í að kaupa losunarheimildir samkvæmt þessari áætlun þar sem við höfum ekki uppfyllt skyldur okkar í loftslagsmálum samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum okkar? Er gert ráð fyrir þeirri fjárhæð í þessari áætlun og hve há er hún?

Þegar kemur að aðgerðum sem hafa áhrif ætla ég að koma með nokkrar spurningar. Getur hæstv. ráðherra verið sammála mér um að nauðsynlegt sé að við sjáum sjálfir um að brenna okkar úrgang sem ekki er unnt að endurnýta hér á landi og brenna það hérlendis í umhverfisvænni sorpbrennslu, tæknivæddri og umhverfisvænni eins og framast er unnt? Getur hann verið sammála mér í því að það sé markmið okkar að gera þetta og þá í samræmi við tillögu mína til þingsályktunar um að reisa hér hátæknisorpbrennslustöð, að við reisum hana hér á landi? Getur hann verið sammála mér í þessu? Ég spyr líka: Getur hæstv. ráðherra verið sammála mér og efni tillögu minnar um aukna skógrækt til kolefnisbindingar? Getur hann verið sammála mér í því að okkur beri að auka skógrækt til kolefnisbindingar hér á næstu árum eða er hann á öðru máli en kemur fram í tillögu minni um aukna skógrækt?