151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:10]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Við hæstv. umhverfisráðherra erum sammála um að það eru margvíslegir kostir einmitt við það að fara í þessa sérstöku aðgerð sem hentar svo vel á Íslandi, endurheimt votlendis, vegna þess að hún þjónar svo mörgum tilgangi og bæði endurheimt votlendis og skógrækt auka auðvitað landgæði. En hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni sem mér finnst skipta miklu máli í þessu: Hvað kostar hvert tonn í þeim aðgerðum sem hér er lýst í fjármálaáætluninni og eru 60 milljarðar á nokkrum næstu árum? Hvað kostar hvert tonn? Ég árétta að mér sýnist, ef maður slær á þetta, að tonnið kosti jafnvel 150.000 kr. sem er auðvitað gríðarlega hátt í samanburði við það sem Votlendissjóður býður t.d. upp á, sem er 2.000 kr. tonnið, eða Kolviður með trjárækt 2.200 kr. Þetta finnst mér skipta miklu máli að verði greint.

Ég hef áður nefnt hér í þessum sal og mörgum sinnum að ein þeirra leiða sem t.d. er verið að fara er kvöð um íblöndun á lífeldsneyti í hefðbundið eldsneyti. Mér sýnist að sú leið hafi kostað ríkissjóð um 10 milljarða kr. í skattaívilnunum frá árinu 2015. Ég hef margoft spurt: Hver er raunverulegur árangur af þessum fjáraustri? Hann er enginn, nákvæmlega enginn. Og ef við hættum þessari aðgerð þá erum við enn á byrjunarreit, ólíkt því sem er með endurheimt votlendis, það er langtímaaðgerð, varanleg aðgerð.

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra hvort það geti verið þannig að þeir alþjóðasamningar sem við erum aðilar að um þessi mál séu að beina kröftum okkar og fjármunum í rangan farveg. Hæstv. ráðherra nefndi það sjálfur að endurheimt votlendis teldi bara svo og svo mikið. Það er vegna þess að sú aðgerð hentar ekki öðrum ríkjum. Íslendingar eiga að marka sér sérstöðu og fara þá leið í loftslagsmálum og umhverfismálum sem hentar okkur, okkar frábæra landi sem er nú þegar með 80% hlutfall endurnýjanlegrar orku í allri sinni orkunotkun. Það hlýtur að þurfa að taka tillit til þessa (Forseti hringir.) þegar menn deila út fé úr vösum skattgreiðenda, tugum milljarða á ári hverju næstu árin.