151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 kemur fram mikill vilji til að ráðast í fjárfestingarátak, fyrst og fremst til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu, og ég tek vissulega heils hugar undir þann vilja sem þar kemur fram. Í slíku átaki leikur ráðuneyti hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lykilhlutverk. Með arðbærum fjárfestingum í samgönguinnviðum fer auðvitað saman nauðsynleg viðspyrna gegn efnahagssamdrættinum og síðan vinna að auknu öryggi og hagkvæmni í samgöngum. Það skiptir máli að þessar fjárfestingar séu rétt tímasettar þannig að ríkið sé tilbúið til að hlaupa hratt í því ástandi sem við búum við núna, en að sama skapi séu aðstæður þannig að það geti haldið að sér höndum þegar atvinnulífið og efnahagurinn tekur við sér aftur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort fjármálaáætlunin geri ráð fyrir að ríkið dragi úr fjárfestingum á ný þegar svigrúm atvinnulífsins til fjárfestinga eykst eða hvort hann geri ráð fyrir viðamikilli aukningu jafnt og þétt út tímabilið óháð efnahagslegum þáttum, sem eru vissulega býsna ótraustir. Þessu tengt hef ég áhuga á því að spyrja hvernig fjármögnun nýframkvæmda sé háttað, einkum þeirra sem farið hefur verið af stað með eða eru í startholunum, og þá ekki síst með tilliti til hinnar nýju fjármögnununar, svokallaðs PPP-samstarfs. Spyr ég þá sérstaklega um stöðuna á þeim sex verkefnum sem tilgreind voru í verkum ráðherra og þingsins fyrr í vetur eða fyrr á kjörtímabilinu, hvort framkvæmdir vegna þeirra verði komnar af stað innan þess samdráttarskeið sem við búum nú við.

Síðan í lokin, af því að þetta eru bara örfáar spurningar, spyr ég hvort ráðherra sé með á borði sínu verkefni sem hægt er að flýta enn frekar. Í þeirri umræðu hefur borgarlínan verið nefnd sem verkefni sem er bæði fullskipulagt og tímasett, en það er ekki eingöngu það sem ég er að spyrja um heldur: Er einhver vinna farin í gang við að fjölga PPP-verkefnum samhliða hinum, og þá með tilliti til þess að það væri verkefni sem atvinnulífið og einkaaðilar gætu tekið við af hálfu ríkisins þegar tími er til?