151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:54]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Meiri menning. Það er ekki gert ráð fyrir því að setja fjármagn í nýjan þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022–2026, eða nýjan þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. Hæstv. ráðherra hefur skipað starfshóp til að afla upplýsinga um þær kröfur sem gerðar eru til mannvirkja sem hýsa alþjóðlega leiki og mót, og greina þarfir fyrir slík mannvirki hérlendis. Niðurstöður hópsins eru þær að engin mannvirki hér á landi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til sérsambanda vegna alþjóðakeppni eða landsleikja í handknattleik og körfuknattleik. Hér segir að áform um þjóðarleikvang í knattspyrnu séu enn það skammt á veg komin að ekki hafi þótt tímabært að gera ráð fyrir fjármögnun í þessari áætlun.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ráð að setja kraft í þessa uppbyggingu og láta fjármuni í þetta mikilvæga verkefni.