151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við höfum unnið að því og undirbúið það mjög vel hvernig við getum farið í innviðauppbyggingu íþróttamannvirkja. Við höfum fengið upplýsingar um kostnað og hver fjárfestingin þarf að vera. Við höfum hins vegar metið það sem svo að þetta þurfi að undirbúa enn frekar og við sjáum að kostnaðurinn verður slíkur, til að mynda varðandi knattspyrnuna, að við þurfum að fara í samstarf við Reykjavíkurborg. Við höfum verið að vinna að því akkúrat þessa dagana hvernig við ætlum að skipta kostnaðinum milli ríkis og borgarinnar, hafi hún áhuga á því að taka þátt í þessu með okkur, og vinnan í ráðuneytinu gengur akkúrat út á það þessa dagana. Það er mín persónulega skoðun að við eigum að fara í þessa innviðauppbyggingu og við viljum gera það og undirbúningur hefur verið mjög góður. Við erum búin að fara mjög vel yfir stöðuna. Við erum í viðræðum við Reykjavíkurborg og ég vonast til þess að við fáum niðurstöðu í það mál á næstu vikum. En ég get líka upplýst hv. þingmann um að vegna þess að við viljum vanda alla vinnu í tengslum við þetta tekur það tíma. Það gerir það bara. En þetta er mjög vel gert og ég er mjög bjartsýn á að við munum sjá nýjan þjóðarleikvang, jafnvel í fleirtölu, rísa á næstu árum. En það þarf að undirbúa þetta og það höfum við verið að gera.