151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða fjármálastefnu fram í tímann. Ég vona heitt og innilega að það hafi bara verið hrein mistök hjá menntamálaráðherra þegar hún hóf ræðu sína í dag og kláraði án þess að nokkur einasta framtíðarsýn kæmi fram um menntun fatlaðra einstaklinga. Menntun er lykilinn að starfi og lífshamingju einstaklingsins. Stefna Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, í menntamálum fatlaðra er í hnotskurn þessi, með leyfi forseta:

„Strax og fötlunar verður vart hjá einstaklingi skal hefja greiningu, þjálfun og kennslu. Foreldrar fatlaðra barna skulu eiga kost á ráðgjöf. Allir skulu eiga kost á skólagöngu. Allar skólastofnanir skulu vera aðgengilegar fötluðum. Fatlaðir skulu eiga kost á námsefni/námsaðstoð og kennslu við hæfi. Sérskólar skulu vera í tengslum við aðra skóla. Möguleikar fatlaðra til menntunar/endurmenntunar séu tryggðir. Fötluðum sé tryggð náms- og starfsráðgjöf.“

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hver er framtíðarsýnin í málefnum fatlaðra einstaklinga? Er hún skýr? Á að bretta upp ermarnar og sjá til þess fram til 2026 að koma þessum málum í það gott lag að við getum verið stolt af því kerfi og að fatlaðir hafi sömu aðstöðu og ófatlaðir til menntunar? Síðan vil ég líka spyrja hvort verið sé að tryggja og skoða aðstæður fatlaðra barna núna í Covid-faraldrinum vegna þess að röskunin hjá þeim hefur orðið gífurleg og í mörgum tilfellum er röskun á þeirra starfi erfiðari en fyrir aðra.