151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Uppfærsla fjármuna í skaðabótalögum. Verið hefur í gangi vinna við uppfærslu á skaðabótalögunum í heild sinni, bæði á þeim þætti sem og öðrum. Ég held að verkefnið sé að það endurspegli betur samfélag okkar, eins og hv. þingmaður nefnir varðandi launastrúktúr og annað, en líka varðandi réttindi og skaðabótaréttindi barna sem dæmi. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða og hefur verið í vinnslu en hefur ekki náðst að klára og er heilmikil vinna. En ég bind vonir við það eins og hv. þingmaður, að slíkri yfirferð verði lokið innan tíðar. En töflurnar eru til stöðugrar endurskoðunar.

Síðan er það persónuverndin, sem er afar mikilvæg í birtum dómum. Við höfum tekið birtingu dóma föstum tökum. Því verki er ekki lokið. Þar hefur bæði verið um að ræða reglusetningu og fræðslu. Brugðist hefur verið við þeirri stöðu ef aðrir en dómstólar birta dóma fólks og er slíkum aðilum tilkynnt um það ef öryggisbrestur verður á birtingu dóma, eins og þegar aðrar síður birta dómana. Þá er fólki tilkynnt um það ef öryggisbrestur verður og hafa þessir aðilar sem birt hafa dómana nú brugðist við slíkum tilkynningum og leiðrétt, sem er mjög mikilvægt og var ekki í lagi áður.

Dómstólasýslan hefur birt skýrar reglur sem eiga að reyna að koma betur í veg fyrir þetta. Við verðum halda þessu stöðugt að dómstólunum og hefur mikið gerst bara undanfarið ár. Ég held að þessari breytingu varðandi öryggisbrest sé beint til einkafyrirtækja. Það er ekki nægilegt að laga vefsíðu dómstólsins heldur verður að gera það líka annars staðar þar sem hlutirnir eru birtir af því að við verðum auðvitað að gæta að persónuverndarsjónarmiðum og að persónuupplýsingar séu ekki rekjanlegar í dómum hvar sem þeir eru birtir.