151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:08]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri nú í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 varðandi þau málefnasvið sem heyra undir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra; málefnasvið 4, utanríkismál, og 35, alþjóðleg þróunarsamvinna. Eins og þegar hefur komið fram er fjármálaáætlun lögð fram við óvenjulegar aðstæður. Gert er ráð fyrir að þau áhersluatriði sem kynnt voru við framlagningu síðustu fjármálaáætlunar haldi sér í öllum meginatriðum. Það er ekkert launungamál að við núverandi aðstæður er veruleg áskorun að takast á við fjölmörg verkefni og áherslumál utanríkisþjónustunnar innan þess ramma sem utanríkisþjónustunni er settur. Það hefur hins vegar tekist til þessa með því að sýna ráðdeild og sveigjanleika til að mæta nýjum áskorunum og óvæntum atburðum. Þess mun áfram gerast þörf á næstu árum við aukna hagsmunagæslu vegna EES-samstarfsins. Búast má við að verkefni tengd norðurslóðum verði fyrirferðarmikil á næstu árum og þarf að tryggja örugg og farsæl samskipti við Bretland, eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar í álfunni. Þá stöndum við frammi fyrir nýjum ógnum í öryggismálum sem tengjast fjölþáttaógnum, ekki síst á sviði netógna. Forsenda þess að hægt sé að mæta örum breytingum í umhverfi okkar og sýna viðbragðsflýti er að hugað verði að auknum sveigjanleika opinbera kerfisins. Tímabilið sem við erum að ganga í gegnum hefur einnig sýnt mikilvægi öflugrar borgaraþjónustu og eins stöndum við frammi fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Viðskiptavakt utanríkisráðuneytisins var formlega ýtt úr vör síðastliðið haust og unnið er að því að auka enn þjónustu við útflutningsgreinar með það að markmiði að skila auknum útflutningstekjum og skilvirkara markaðsstarfi erlendis.

Varðandi einstaka þætti ber fyrst að nefna að gert er ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 4, utanríkisþjónustu, lækki um liðlega 1,5 milljarða kr. á tímabilinu. Það skýrist að mestu leyti af því að framlög til uppbyggingarsjóðs EES lækka um rúman milljarð. Sjóðurinn er nú á seinni hluta samningstímabilsins og lækka framlög til hans í áföngum til ársins 2025. Almenn aðhaldskrafa nemur um 600 millj. kr. á tímabilinu. Niðurfelling framlaga til tímabundinna verkefna, t.d. formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og viðræðna við Breta vegna útgöngu úr ESB, skýra lækkun framlaga um liðlega 400 millj. kr. á tímabilinu. Á móti hækka framlög til ýmissa verkefna á tímabilinu, svo sem vegna formennsku í Evrópuráðinu og framboðs til framkvæmdastjórnar UNESCO. Þá er gert ráð fyrir 100 millj. kr. hækkun vegna útgjaldasvigrúms og að tímabundin skerðing framlaga árs 2021 gangi til baka. Einnig er gert ráð fyrir að tímabundin skerðing framlaga til Íslandsstofu gangi til baka og að framlög aukist í samræmi við betri afkomu um liðlega 200 millj. kr. Gert er ráð fyrir að samningsbundin framlög til stofnana Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna og vegna varnarmála aukist um liðlega 180 milljónir á tímabilinu í samræmi við áætlun um auknar þjóðartekjur.

Virðulegur forseti. Ég sný mér nú að málefnasviði 35, alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Mannréttindi, jafnrétti og sjálfbær þróun eru leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld. Lögð er sérstök áhersla á svið þar sem sérþekking Íslands nýtist sem best. Stofnaður hefur verið nýr samstarfssjóður við atvinnulífið um verkefni sem stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum hagvexti í fátækum þróunarríkjum í samræmi við ákall þar um. Utanríkisráðuneytið hefur nú hafið samstarf við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Tækniþróunarsjóð um styrki til verkefna sem hafa það að markmiði að skapa atvinnu í fátækari ríkjum heims á tímum Covid-19. Framlög til málefnasviðs 35 taka breytingum í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir að hlutfall heildarframlaga til þróunarsamvinnu hækki úr 0,32% árið 2021 í 0,35% árin 2022–2026. Þegar litið er til útgjaldaramma fjármálaáætlunar 2022–2026 kemur í ljós að tölur endurspegla ekki hækkun miðað við þróun vergra þjóðartekna og síðari hluta áætlunarinnar. Samkvæmt útreikningum utanríkisráðuneytisins nemur frávikið liðlega 2,3 milljörðum í lok tímabilsins. Um mistök er að ræða sem fjármálaráðuneytið hefur útskýrt og ég vona að það verði leiðrétt áður en reynir á það. Hærri framlög til þróunarsamvinnu á tímabilinu verða nýtt til að efla verkefni Íslands í tvíhliða samstarfslöndum, styrkja samstarf við atvinnulífið og frjáls félagasamtök ásamt því að bregðast við aukinni þörf fyrir mannúðar- og neyðaraðstoð. Jafnframt verður aukinn kraftur settur í að mæta skuldbindingum Íslands á sviði mannréttinda, kynjajafnréttis og umhverfis- og loftslagsmála.

Virðulegi forseti. Meginverkefni íslenskrar utanríkisþjónustu verða hér eftir sem hingað til að gæta hagsmuna Íslendinga og íslenskra fyrirtækja erlendis. Utanríkisþjónustan er útvörður þjóðarinnar hvað varðar varnir og öryggi, utanríkisviðskipti og menningarmál. Þá gætir hún víðari hagsmuna með öflugu málsvarastarfi og framlagi í þágu sjálfbærrar þróunar og mannréttinda.