151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:28]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir málefnalegar og góðar spurningar. Það er samt ekki þannig, og ég vona að hv. þingmaður taki því ekki illa, að Evrópusambandið sé himnaríki. Það er fullkominn misskilningur. (Gripið fram í.) Það er alls ekki þannig að allir séu á eitt sáttir um það hvernig Evrópusambandið gæti hagsmuna þeirra sem eru innan Evrópusambandsins. Því miður er erfitt hjá vinum okkar í Evrópusambandinu núna og Covid-faraldurinn er enn þá meira álagspróf á Evrópusambandið. Allir gæta sinna hagsmuna og það er alls ekki þannig að menn séu sammála um að Evrópusambandið gæti hagsmuna þeirra 27 ríkja sem þar eru inni. En það er alveg sérstök umræða og ég myndi fagna því ef hv. þingmaður tæki upp slíka umræðu við mig, eins og hv. þingmaður getur rétt ímyndað sér.

Varðandi þróunarsamvinnuna þá höfum við náttúrlega séð gríðarlega mikla aukningu. Ef við erum að tala um að einhver ríkisútgjöld hafi aukist hratt á undanförnum árum, fyrir utan heilbrigðismálin og félagsmálin, þá er það vegna þróunarsamvinnu. Þetta er mikil aukning á skömmum tíma. Það er mikilvægt að okkur gangi vel að nýta þessa fjármuni og það er margt sem má ræða út frá þeim forsendum, sem ég næ ekki að gera núna á þessum 30 sekúndum. Hvenær náum við upp í 0,7%? Síðast þegar ég skoðaði það vorum við í kringum eða yfir meðaltali OECD-ríkjanna og höfum verið að auka þetta jafnt og þétt. Ég held að það skipti máli í öllu að það snúist ekki bara um að við séum með tölurnar á blaði heldur líka um að við nýtum fjármunina eins vel og hægt er. Ég hef verið ánægður með þær áherslubreytingar sem hafa verið gerðar að undanförnu, m.a. að íslenskt atvinnulíf hefur, eins og atvinnulíf í öðrum löndum, tekið í auknum mæli þátt í þeirri samvinnu eins og kallað hefur verið eftir frá þessum ríkjum, (Forseti hringir.) svo eitthvað sé nefnt. En ég get farið betur í það á eftir.