151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki bara á Íslandi sem bóluefni og bólusetningar eru mál málanna. Þetta er grafalvarlegt mál og kallar á sýn og skipulag, samningatækni og úthald. Það er mikið undir, mjög mikið, en það er líka gott að geta séð það broslega í stöðunni, ekki síst þegar beinlínis öskrar á mann sá stormur í vatnsglasi sem íslensk stjórnvöld mögnuðu upp vegna heimatilbúins misskilnings um að Evrópusambandið ætlaði að skilja okkur eftir. Upplifunin var svolítið eins og þegar maður hlustar á fólk rífast við útvarpið; þetta er eins manns rifrildi, það er enginn ágreiningur um málið. „Fréttir“ um að Evrópusambandið myndi ekki flytja bóluefni til Íslands voru strax bornar til baka og engin hætta er á ferðum, en eftir að misskilningurinn var leiðréttur komu íslensk stjórnvöld fram grjóthörð og töluðu um að það skyldi sko enginn svína á okkur, allra síst ljóta Evrópusambandið. Það broslega er kannski það að þessi viðbrögð komu fram eftir staðfestingu frá forseta framkvæmdaráðs Evrópusambandsins um að það hefði aldrei staðið til að hindra bóluefnasendingar til Íslands.

Nýja reglugerðin, sem olli þessum stormi í vatnsglasi íslenskra stjórnvalda, skilar vonandi árangri og auknu framboði á bóluefni innan Evrópusambandsins vegna þess að við munum njóta góðs af því á Íslandi til jafns við Evrópusambandslöndin. Þessi stormur er svolítið eins og æfð almannavarnaæfing, engin hætta á ferðum en stórslys sett á svið. Stjórnvöld flytja svo æfða ræðu um hættu sem aldrei var til staðar og einhvern veginn læðist að manni, áheyrandanum, sú tilfinning að sú ræða hafi verið ætluð einhverjum aftursætisbílstjórum sem verið er að vinna gagn frekar en íslenskri þjóð.