151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[13:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér finnst þetta mjög athyglisvert. Að sjálfsögðu fagna ég því að verið sé að taka á þessu og að það komi fram í dagsljósið hér og nú að nauðsynlegt sé að hafa eftirlit með þessu. Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að komið hafa fram einhver dæmi um að verið sé að fresta viðhaldi. Það er þessi freistnivandi, þegar einkaframtakið er annars vegar, til að hámarka gróðann. Þau dæmi eru þekkt í Bretlandi, eins og ég nefndi, að menn hafa frestað og dregið úr viðhaldi til að auka arðsemi af viðkomandi starfsemi. Þess vegna fagna ég því mjög að þetta skuli vera hér inni og verið sé að varpa ljósi á að í núverandi kerfi séu hvatar sem leiða til þess að menn geti frestað viðhaldi.

Eins og ég nefndi áðan er hér býsna stórt dreififyrirtæki sem er að hluta til í eigu einkaaðila og settar eru fram ákveðnar arðsemiskröfur. Ég vil segja að lokum, frú forseti, að ég fagna því að þetta sé í frumvarpinu. Ég tel það ákaflega mikilvægt. En það væri líka fróðlegt að fá upplýsingar um hvort dæmi séu um að viðhaldi hafi verið frestað. Slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef á daginn kæmi að menn freistuðust til þess að halda ekki við mikilvægum orkumannvirkjum. Það snýr að afhendingaröryggi og öryggi almennt þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki.