151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

625. mál
[14:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í tilefni af síðustu ræðu segja að við vinnum að því að eignast hlutina í Auðkenni að fullu. Það hafa talsverð samskipti verið undanfarna mánuði vegna þess máls. Þau hafa bæði snúið að verðlagningu hluta í félaginu og hvað það snertir hefur málið snúist um það hvaða verð ríkið er tilbúið til að greiða öðrum hluthöfum í félaginu, en ríkið er bæði beint og óbeint með meiri hluta hlutafjár í félaginu ef við horfum til eignarhlutar ríkisbankanna í því samhengi. Hins vegar hefur þetta samtal snúist um framtíðina og framtíðarsamstarf við helstu þjónustuveitendur hér innan lands, fjármálakerfið og aðra slíka, þar sem fram hefur komið mikill áhugi hjá viðkomandi aðilum, ef til þess kæmi að þeir myndu losa sig út úr félaginu sem hluthafar, á því að hafa einhvers konar aðgang að vettvangi þar sem rætt væri um þróun hugbúnaðarins og hvaða áherslur ættu að vera í rekstri félagsins hvað tæknilegar lausnir snertir sérstaklega. Við höfum svo sem tekið ágætlega í það að láta reyna á að skapa slíkan vettvang fyrir þessa stærstu aðila þar sem þeir gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri um það hvaða áherslur ættu að vera í forgrunni hjá félaginu þannig að við værum best að mæta þörfum notenda skilríkjanna hverju sinni. En varðandi verðið er kannski það helst að segja að við stöndum frammi fyrir þessu mati sem hv. þingmaður kom inn á, sá möguleiki er auðvitað til staðar fyrir ríkið að þróa einfaldlega ný rafræn skilríki frá grunni á eigin forsendum. Við vildum heldur láta reyna á það fyrst að nýta það sem fyrir er og við höfum átt þátt í að skapa og þróa og allir landsmenn, þannig að það sé sagt, hafa aðgang að því og ríkið tekur af því kostnaðinn í dag. Það mun hins vegar ekki klárast nema samkomulag takist um verðið og við þurfum þá að bera þessa kosti dálítið saman í því samhengi.

Hafandi sagt þetta þá vil ég láta það koma fram að ég er enn mjög vongóður um að við séum að ljúka samningum um þessi mál.