151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Málið er lagt fram sem stjórnarmál. En hins vegar, eins og fram kemur í máli hv. þingmanns, í undirtóninum í hennar máli, liggur þetta mál eðli máls samkvæmt mjög þvert á stjórnmálaflokka, suma, ekki alla, þannig að ég myndi gera ráð fyrir því að við ættum að reyna að vinna það þannig að það næðist mjög breið samstaða um það. Ég held að það skipti líka máli upp á að framkvæmdin gangi sem allra best. Nú erum við að tala um að gildistakan sé eftir kosningar þegar við verðum mögulega komin með breytta ríkisstjórn og það ótrúlega gæti gerst að það yrði jafnvel annar heilbrigðisráðherra. Ef við erum að tala um gildistöku um næstu áramót skiptir mjög miklu máli að það sé traustur grunnur undir málið sjálft. Þess vegna vil ég auðvitað vona að með afgreiðslu hv. velferðarnefndar á málinu, sem kemur ekki að þessari umræðu í fyrsta sinn og kann málið nokkuð vel, lánist henni að ná vel utan um það og undirstriki það sem hér um ræðir, sem er hugmyndafræði skaðaminnkunar og mannúðar og sú nálgun að við viljum gera þetta í því skyni að bjarga mannslífum og hverfa frá refsistefnu yfir í það að við séum að sinna fyrst og fremst heilbrigðisþjónustu við viðkvæman hóp. En skrefið sem tekið er til viðbótar í mínu frumvarpi frá því sem áður hefur verið er að við leggjum til að horfið verði frá refsingum vegna kaupa. Það er nýtt skref og fyrir suma gæti það virkað of róttækt. Ég vona ekki. Ég vona að röksemdin bæði í frumvarpinu og greinargerðinni dragi það fram að fólk átti sig á því að þetta verður eiginlega ekki rofið í sundur þegar maður er kominn út í veruleikann.