151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Þau eru vissulega athyglisverð, lagafrumvörpin sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á þessu kjörtímabili. Fyrst ber að nefna fóstureyðingarfrumvarpið og svo núna afglæpavæðingu fíkniefna. En það sem ég vildi koma inn á er það sem kemur skýrt fram í þessu frumvarpi, eins og segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Þó skal kaup og varsla efna vera heimil í því magni sem er ekki umfram það sem talist getur til eigin nota …“

Og svo segir í 3. gr.:

„Þó skal ekki gera upptæk efni sem eru í vörslu einstaklinga 18 ára og eldri þegar magnið er innan þess sem talist getur til eigin nota …“

Ráðherra hnykkti síðan á þessu í ræðu sinni og sagði að hvorki væri heimild né skylda lögreglu til að gera efni upptæk.

Þá vil ég aðeins spyrja hæstv. ráðherra út í nágrannalöndin. Þegar frumvarp þessa efnis var rætt í Noregi lagði ríkisstjórn Noregs fram frumvarp fyrir norska Stórþingið í kjölfar vinnu nefndarinnar þar, þar sem lagt var til að varsla neysluskammta yrði ekki lengur refsiverð en þó yrði lögreglu áfram heimilt að stöðva notkun yrði hún vör við slíkt, og gera efni upptæk. Þannig að við skerum okkur úr þarna. Hæstv. ráðherra getur þá bara leiðrétt mig, en ég held að þetta sé líka svona í Portúgal, af því að hæstv. ráðherra nefndi Portúgal í ræðu sinni. Hvers vegna förum við lengri leið en nágrannalöndin, eins og t.d. Noregur? Hvers vegna má ekki lögregla gera þetta upptækt? Þurfum við alltaf að ganga lengst hér á Íslandi? Ég nefni fóstureyðingarfrumvarpið sem dæmi.