151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[16:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það sem fram kemur í hennar máli þegar um er að ræða breytingar af þessari stærðargráðu. Þó að frumvarpið láti kannski ekki mikið yfir sér þá er umræðan mjög mikilvæg og það er mjög mikilvægt að hún eigi sér stað bæði innan þings og utan. Það er svo mikilvægt að samfélagið sé tilbúið, og ekki bara samfélagið að því leyti sem við erum að tala um, stofnanaumhverfi, lögregla o.s.frv., heldur kannski miklu frekar samfélagið sem sá umræðuvettvangur sem það getur verið þegar best gengur. Ég vil því taka undir það. Frumvarpið er auðvitað ekki orðið að lögum en þetta er eitt af því sem þarf að undirbúa mjög vel. Það er ekki bara þörf á því að tryggja að þeir aðilar sem þurfa að starfa samkvæmt nýjum lögum, ef þingið lýkur afgreiðslu þessa máls, séu með í ráðum, heldur þarf líka að halda mjög vel utan um stuðning við aðstandendur. Þessi breyting á lagaumhverfi hefur líka beinlínis áhrif á fjölskyldur, ekki bara að því er varðar þá þjónustu sem sá sem notar fíkniefni eða vímuefni á rétt á eða getur notið, heldur líka þá umræðu sem hverfist um hvern einstakling. Eitt af því sem skiptir ekki síst máli í þessum efnum er að draga úr útskúfun þessa hóps í samfélaginu.