151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru nokkrir hlutir sem ég myndi vilja ræða við hv. þingmann. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hv. þingmann út í ummæli hans um að það að afnema refsingar fyrir vörslu neysluskammta sé á einhvern hátt í andstöðu við stjórnarskrána. Ég velti fyrir mér hvernig það að afnema refsingar eða að gera eitthvað ekki refsivert geti verið í andstöðu við stjórnarskrána. Ég skil það ekki alveg þannig að ég ætla að biðja hv. þingmann um að útskýra það fyrir mér.

Ég heyri líka að hv. þingmanni finnst að það þurfi að gera eitthvað varðandi vörslu vímuefna, þ.e. að sé fólk nappað með neysluskammt fari það á sakaskrá, að það þurfi að gera eitthvað í því. Hv. þingmaður vill gefa viðkomandi val um hvort hann fari í meðferð eða eitthvað slíkt, ef ég skil ræðu hv. þingmanns rétt, og sleppi þannig við að fara á sakaskrá. Ég heyrði það einnig í ræðu hv. þingmanns að hann hafi sjálfur ánetjast áfengi. Ég velti fyrir mér, ef hv. þingmaður spyr sjálfan sig að því: Hefði það hjálpað hv. þingmanni við að takast á við þann vanda að fara á sakaskrá fyrir að neyta áfengis? Hefði það hjálpað hv. þingmanni þurfa að greiða háar sektir fyrir að hafa verið tekinn með áfengi úti á götu? Hefði hjálpað hv. þingmanni að leita sér aðstoðar ef það hefði verið refsivert að hafa í vörslu sinni það vímuefni sem hann ánetjaðist og refsivert að nota það í samfélaginu? Ef viðhorfið í samfélaginu væri að hv. þingmaður væri að fremja glæp með notkun sinni á áfengi, hefði hjálpað honum að takast á við vanda sinn, hefði hann upplifað að samfélagið liti ekki sem á hann jafn góða manneskju vegna þess að hann væri að nota efni sem búið væri að útiloka og banna í samfélaginu?